Orðlaus þegar þau fengu Orðstír

Bókmenntir
 · 
Orð um bækur

Orðlaus þegar þau fengu Orðstír

Bókmenntir
 · 
Orð um bækur
Mynd með færslu
09.09.2017 - 17:31.Jórunn Sigurðardóttir.Orð um bækur
Á föstudaginn afhenti fulltrúi Miðstöðvar íslenskra bókmennta, Kristján Jóhann Jónsson, þeim Eric Boury og Victoriu Cribb viðurkenninguna Orðstír sem nú var veitt öðru sinni fyrir framúrskarandi störf við þýðingar íslenskra bókmennta yfir á önnur tungumál. Bæði hafa þau Eric og Victoria þýtt tugi verk eftir fjölmarga íslenska höfunda þeirra á meðal Sjón, Jón Kalman Stefánsson, Arnald Indriðason og Yrsu Sigurðardóttur.

Victoria Cribb og Eric Boury fengu bæði ung áhuga á Íslandi og íslenskri tungu og lærðu íslensku bæði í heimalandi sínu og við Háskóla Íslands.

Victoria Cribb þýðir yfir á ensku en Eric Boury á frönsku. Þau segja mikla eftirspurn vera í heimalöndum sínum eftir íslenskum skáldskap af öllum gerðum og að það bráðvanti fleiri þýðendur.

Hér segja þau Victoria og Eric frá starfi sínu og margvíslegum vanda sem þau jafnaðarlega þurfa að leysa við yfirfærslu skáldskapar yfir á annað tungumál.

Mynd með færslu
 Mynd: Hrefna Haraldsdóttir
Eric Boury með nokkrum „höfunda sinna“, Hallgrími Helgasyni, Jóni Kalman Stefánssyni, Arnaldi Indriðasyni og Guðmundi Andra Thorssyni.

Hugmyndin að því að veita þýðendum íslenskra bókmenta yfir á erlend tungumál viðurkenningu hafði lengi legið í loftinu. Það var Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi forseti sem tók af skarið en að verðlaununum standa auk skrifstofu forsetaembættisins, Alþjóðleg bókmenntahátíð í Reykjavík, Miðstöð íslenskra bókmennta, Íslandsstofa og Bandalag þýðenda og túlka. Verðlaunin voru fyrst afhent árið 2015 og féllu þá í skaut Chaterine Eyjólfsson fyrir þýðingar sínar yfir á frönsku og Eriks Skyum Nielsen fyrir þýðingar yfir á dönsku.