OPEC vakna af værum olíusvefni

14.07.2017 - 13:44
epa03837936 (FILE) A file photo dated 09 November 2007 showing an oil worker under an oil well as he checks the oil pumping equipment at Gudong oil field which is a part of China's Shengli oil field, 09 November 2007. The Gudong oilfield constitutes
 Mynd: EPA  -  EPA FILE
OPEC, samtök olíuútflutningslanda, hafa uppfært spá sína fyrir fjölda rafmagnsbíla á næstu árum og áratugum. Árið 2015 áætluðu samtökin að 46 milljón rafmagnsbílar yrðu á götum heimsins árið 2040. Í fyrra spáðu samtökin hins vegar að 266 milljón rafbílar verði í umferðinni það ár.

Í spánni felst því um 500% hækkun á væntri fjölgun rafbíla miðað við fyrra ár. Í frétt á vef Bloomberg segir að þetta bendi til að OPEC taki í fyrsta skipti alvarlega þá ógn sem hagsmunum þeirra gæti stafað af rafbílum. Búist er við að þessi fjölgun rafbíla dragi verulega úr eftirspurn eftir olíu - um allt að átta milljón tunnur - fram til ársins 2040. Það er meira en sem nemur samanlagðri olíuframleiðslu Írans og Íraks.

Bloomberg New Energy Finance (BNEF) telur að sala rafbíla taki fram úr sölu bensín- og dísilbíla árið 2040. BNEF er reyndar nokkuð djarfara í spám sínum um fjölgun rafbíla, því spá þeirra gerir ráð fyrir að það ár verði þeir 530 milljónir og því einn af hverjum þremur bílum rafbíll.

Spá OPEC er auk þess öllu varfærnari en spár bílaframleiðenda. Stærstu bílaframleiðendur heims gera ráð fyrir að selja sex milljón rafbíla árið 2025 og átta milljón bíla 2030. Þá er gert ráð fyrir að rafbílar og bílar með sprengihreyfil verði jafndýrir árið 2025, en rafbílar eru nú nokkuð dýrari en bílar knúnir jarðefnaeldsneyti. Ein ástæða þessa verðmunar er að þriðjungur kostnaðarins við framleiðslu rafbíla er mikill kostnaður vegna rafhlöðunnar, sem búist er við að lækki mikið á næstu árum.