Opal dregið til hafnar á Grænlandi

06.09.2017 - 17:21
Mynd með færslu
 Mynd: Norðursigling  -  RÚV
Skonnortan Opal, í eigu Norðursiglingar, bilaði í vondu veðri við Grænland í síðustu viku með tólf manns um borð. Taka þurfti skipið í tog auk þess sem því var siglt undir seglum til hafnar.

Opal var í siglingu með farþega um Scoresbysund við austurströnd Grænlands á föstudag þegar bilunin varð. „Það gerðist einfaldlega að það fór lega í sundur frá mótor út í skrúfu þannig að skipið gat ekki keyrt á eigið vélarafli," segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar.

Lentu í vondu veðri á leið til hafnar

Hann segir þrjú af skipum Norðursiglingar á Scoresbysundi og tvö á sömu siglingaleiðinni. Skonnortan Donna tók Opal í tog en skipin lentu í vondu veðri á leið til hafnar. „Það var náttúrulega vont veður að hluta til. En skipið var dregið þegar það þurfti, en að öðru leiti þá bara sigldi það á sínum seglum.“ 

Segir farþegana ekki hafa verið í hættu

12 voru um borð í hvoru skipi og því 24 farþegar í báðum skipunum. Guðbjartur segist ekki meta það svo að farþegarnir hefi verið í hættu. „Nei, eins og ég segi, við erum með þrjú skip og tryggjum okkur og göngum þannig frá að við erum með öryggisnetið nokkuð þétt. Við erum með frábærar áhafnir og skipstjórnendur sem eru búnir að sigla þessar hefðbundnu leiðir í nokkuð mörg ár."

Ætla að sigla Opal undir seglum til Húsavíkur   

Opal er nú í höfn í Constable Point og þarf að komast til Íslands í viðgerð. Guðbjartur segir að skipinu verði siglt undir seglum heim til Húsavíkur. „Það er sérhannað í þessar siglingar og hefur gert það að öllu jöfnu líka með vélinni. Við erum þó með í bígerð að gera ráð fyrir því að sigla jafnvel á móti þeim einhvern hluta af leiðinni."

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV