Óljóst hvað olli rafmagnsbilunum fyrir austan

17.05.2017 - 09:24
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Enn er óljóst hvað olli rafmagnsbilunum á Suðaustur- og Austurlandi í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti varð bilun í flutningskerfi fyrirtækisins. Unnið sé að því að greina hana. Rafmagn er komið á aftur á helstu þéttbýlisstöðum.

Í tilkynningu frá Landsneti segir að truflun hafi orðið í flutningskerfi Landsnets en rafmagn sé víðast hvar komið aftur á. Það sé komin spenna á alla þéttbýlisstaði nema Vopnafjörð, en þar er keyrt á varaafli. Jarðstrengurinn Stuðlalína 1, milli Hryggstekks í Skriðdal og Stuðla í Reyðarfirði sé bilaður og raforkunotendur á Austfjörðum fái rafmagn frá Hryggstekk um Eyvindarárlínu 1, sem liggur til Eyvindarár við Egilsstaði.

Það megi búast við einhverjum spennutruflunum áfram en rafmagn fór af mjög víða upp úr klukkan sjö en var komið á um klukkan hálfníu. Rafmagn fór af á Kirkjubæjarklaustri og Höfn og austur eftir alveg norður til Vopnafjarðar. Þar var rafmagn keyrt á varafli og svo var enn á tíunda tímanum. 

 

 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV