„Olíuleit er fáránleg hugmynd“

15.05.2017 - 17:54
Lestin talaði við Guðrúnu Elsu Bragadóttur um grein hennar í Ritinu frá því í fyrra. Þar setur hún olíuleitina á Drekasvæðinu í samhengi við hugmyndir um „aðgerðarleysi“ og hinsegin fræði.

 

„Sagan af ritaranum Bartleby eftir Herman Melville lýsir furðunni sem vaknar þegar manneskja gerir ekki það sem til er ætlast, þótt hún sé bæði fær um að gera það og myndi hagnast á því. Frásögninni vindur fram með stöðugu hökti. Lögfræðingur á Wall Street segir frá því hvernig Bartleby, duglegasti starfsmaður hans, hættir einn góðan veðurdag að hlýða fyrirmælum með orðunum „ég myndi kjósa að sleppa því“.“

Svona hefst grein Guðrúnu Elsu Bragadóttur sem ber heitið “Að kjósa að sleppa því” - Olíuleit, aðgerðarleysi og hinsegin möguleikar” sem birt var í Ritinu, tímariti hugvísindasviðs Háskóla Íslands, í fyrra. Greinin fjallar um möguleika, vald og það að gera “ekki” það sem við getum gert. Hún setur olíuleit íslendinga á Drekasvæðinu í samhengi við þetta og veltir fyrir sér hvaða hugsun sé á bak við leit okkar að úthafsolíu. Hvers eðlis er sú ákvörðun þegar allur vísindalegur samhljómur kveður á um að gera hið gagnstæða?

Hvernig tölum við um loftslagsbreytingar?

Fræðileg greining á loftslagsvandanum og orsökum hans virðist ekki nægja til að brugðist sé við honum. Það er eitthvað sem við höldum fast í ennþá. Og undanfarin ár hefur færst í aukana að umhverfissinnar biðli til ríkisstjórna og stóriðjufyrirtækja um að hætta við gróðavænlegar framkvæmdir sem myndu fela í sér verulegan útblástur gróðurhúsalofttegunda. Að biðja þá um að kjósa að sleppa því.

Í greininni sækir Guðrún í skrif ítalska heimspekingsins Giorgio Agamben og skoðar meðal annars hugtak hans “megund” til að varpa ljósi á mikilvægi “aðgerðarleysis” á Drekasvæðinu. Það að biðja ráðamenn eða fyrirtæki um að láta skammtímagróðasjónarmið lönd og leið felur í sér ósk um að viðkomandi reyni ekki lengur að gangast upp í þeim kröfum um gróða og stöðugan vöxt.

Einnig leitar hún í hinsegin fræði og nýtir hugmyndir þaðan um að víkja frá ríkjandi viðmiðum og gildum í leit að nýjum. Eitthvað sem við þyrftum í það minnsta að velta fyrir okkur.

Guðrún er búsett í Bandaríkjunum en Lestin sló á þráðinn vestur um haf og fékk hana til þess að segja nánar frá því hvernig greinin varð til.

Jóhannes Ólafsson
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi