Olíuleiðsla sprakk á Akranesi

13.07.2017 - 21:33
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson  -  RUV
Olíuleiðsla á Akranesi sprakk um hádegisbilið í dag með þeim afleiðingum að tvö til þrjú tonn af olíu flæddu út í jarðveginn að sögn heilbrigðisfulltrúa á Vesturlandi. Ekki tók langan tíma að stöðva lekann, en menn hafa verið að störfum í allan dag við að hreinsa jarðveginn í kringum olíuleiðsluna.

Leiðslan er í eigu fyrirtækisins Olíudreifingar ehf. sem sér um dreifingu og birgðahald á fljótandi eldsneyti og þjónustu við olíubirgðastöðvar og bensínstöðvar. 

Leiðslan er grafin í jörðu og liggur frá höfninni á Akranesi og upp að olíubirgðastöð. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á Akranesi var orsök lekans sú að ventill eða loki á leiðslunni gaf sig með þeim afleiðingum að olía sprautaðist út.

„Menn voru fljótir að bregðast við. Nú er búið að girða svæðið af og svo er verið að þrífa. Það verður klárað að ganga frá þessu á morgun," segir Þráinn Ólafsson, slökkvistjóri á Akranesi og tekur fram að engin hætta hafi verið á ferðum.

Slökkviliðið tók ekki þátt í hreinsunarstarfi, heldur fékk fyrirtækið Olíudreifing jarðvegsverktaka í verkið að sögn Þráins.

Helgi Helgason, fulltrúi Heilbrigðiseftirlitsins á Vesturlandi, segir að hreinsunarstarf hafi staðið yfir í allan dag en of snemmt sé að segja til um hvort tjón hafi orðið. 
 

 

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV