Olíubirgðir jukust í febrúar

15.03.2017 - 11:05
Mynd með færslu
 Mynd: EPA  -  APA FILE
Aðildarríki OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja, hafa að mestu staðið við samkomulagið um að draga úr framleiðslu, engu að síður jukust olíubirgðir í febrúar. Alþjóðaorkumálastofnunin IEA greindi frá þessu í morgun.

OPEC-ríki samþykktu í nóvember að draga úr framleiðslu í hálft ár, í þeim tilgangi að fá hærra verð fyrir framleiðsluna. Rússar tilkynntu mánuði síðar að þeir ætluðu að gera slíkt hið sama. 

IEA sagði í morgun að staðið hefði verið við samkomulagið að mestu leyti. Olíubirgðir hefðu þó aukist í febrúar vegna meiri framleiðslu einstakra OPEC-ríkja en gert var ráð fyrir og aukinnar framleiðslu ríkja utan samtakanna, ekki síst Bandaríkjanna. 

IEA segir að á þessari stundu sé ekki ljóst hvort OPEC-ríki framlengi samkomulagið þegar gildistíma ljúki. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV