Öldungar mótmæla forseta Venesúela

13.05.2017 - 03:13
epa05960444 Demonstrators scuffle with Bolivarian National Police agents during a demonstration in Caracas, Venezuela, 12 May 2017. Thousands of elderly joined the so called 'march of grandparents' to support the anti-Government protests started
 Mynd: EPA  -  EFE
Lögregla beitti táragasi gegn öldruðum mótmælendum víða í Venesúela í gær. Efnahagslægðin í landinu hefur komið verulega illa við eldra fólk og þótti mörgum nú nóg komið. Þúsundir eldri borgara flykktust á götur Caracas og annarra stærri borga landsins og mótmæltu frammistöðu stjórnvalda. 

Breska ríkisútvarpið hefur eftir eldri manni í Merida að stjórnvöld séu að drepa almenna borgara á þrenna vegu. Fólk deyi vegna matarskorts, það deyi vegna skorts á lyfjum og þá séu almennir borgarar myrtir á mótmælafundum. Fjöldi viðmælenda sagðist einfaldlega kominn með nóg.

Af stjórnvöldum í Venesúela er það að frétta að Nicolas Maduro, forseti landsins, rak heilbrigðisráðherra landsins, Antonieta Caporale. Fyrir skömmu kom út skýrsla sem sýndi mikla aukningu á dánartíðni barna síðustu tvö ár auk þess sem konum sem láta lífið við barnsburð hefur fjölgað verulega. Ráðherrann hafði einungis verið í embætti í fjóra mánuði.

Fjölmenn mótmæli hafa verið á götum borga Venesúela daglega frá aprílbyrjun. Tilraun stjórnvalda til þess að hrifsa völd frá þinginu, þar sem stjórnarandstæðingar eru í meirihluta, hleypti mótmælaöldunni af stað. Nærri 40 hafa fallið í átökum mótmælenda og lögreglu síðan þá.

Upp á síðkastið hafa stjórnarandstæðingar skipulagt mótmæli með ákveðnu þema. Á föstudag í síðustu viku voru það konur, en í gær báru mótmælin yfirskriftina ömmu og afa mótmæli. Stjórnvöld svöruðu mótmælunum með eigin fjöldagöngu þar sem stuðningsmenn forsetans meðal eldri borgara mærðu hann á götum Caracas.