Ólafur Arnalds semur fyrir ómannlega dansara

05.08.2017 - 15:56
Kynningarefni vegna Island Songs verkefnis Ólafs Arnalds
 Mynd: Marino Thorlacius  -  Ólafur Arnalds
Tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds sér um tónlistina í skapandi hreyfiskúlptúr sem er eitt af meginverkunum í tilkomumikilli og spánnýrri listasýningarálmu Changi flugvallar í Singapúr. Það er þýska hönnunarstúdíóið ART+COM sem setur upp og þróar verkið í samstarfi við Ólaf en áður hefur hann unnið með stúdíóinu að verkum árið 2012 og 2014. Stúdíóið er heimsfrægt fyrir tæknilega flókin og meistaralega útfærð hreyfilistaverk.

Nýja verkið er einskonar dansandi vera en tónlist Ólafs bregst við hreyfingum verunnar í gegnum stafræn gögn. „Þetta er þriðja verkið sem við gerum saman, þar sem okkur fannst virka vel að setja músík saman við hreyfilistaverkin sem þau hanna hjá ART+COM,“ segir Ólafur. Hann segir að ferlið hafi tekið allt að tvö ár enda sé verkið bæði stórt og massamikið.

Tónlist Ólafs var sérstaklega samin fyrir verkið en hann segir að tónsmíðarnar komi til á tvo vegu: „Stundum sem ég bara tónlist sem okkur finnst fitta og látum verkið dansa við það, í raun og veru, en svo erum við líka að vinna með generatífa [ísl. skapandi] músík þar sem við getum notað gögn frá verkinu, frá mótorunum sem hreyfa það, úr tölvunum sem keyra það, og nota þau til að búa til músíkina sjálfa,“ segir Ólafur. „Hreyfingin og það sem þú heyrir verður að einu.“ Hann segist þó stundum þurfa að grípa inn í og bæta við: „Það verður ekki alltaf mjög músíkalskt þannig að maður semur líka frá sjálfum sér, ofan í verkið.“

Smáforrit og hlustunarstöðvar

ART+COM var stofnað árið 1995 og hefur skapað sér gott orð fyrir framsæknar hugmyndir þar sem nýjasta tækni mætir hönnun og listum á nýstárlegan máta. Annar stjórnenda stúdíósins, Joachim Sauter, hefur verið prófessor við Listaháskólann í Berlín frá árinu 1991 og auk þess prófessor í stafrænni miðlun og listum við UCLA í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum frá árinu 2001. Er Sauter sá sem m.a. stýrir verkefninu í Singapúr en flugvöllurinn óskaði eftir samstarfi við stúdíóið. Kemur Ólafur að verkefninu sem samstarfsaðili hinna síðarnefndu.

Verkinu fylgir smáforrit sem gerir áhorfendum kleift að geta notið verksins til fullnustu. „Hlustandi getur farið í flugvallar-appið og kveikt á músíkinni þar og reynt að spotta hvernig músíkin og hreyfingarnar vinna saman.“ Hann bætir því við að 10 hlustunarstöðvar eða básar séu á flugvellinum þar sem hægt sé að hlusta með gott útsýni yfir verkið.

Meira en bara flugvöllur

Ólafur segist hafa spilað nokkrum sinnum í Singapúr en að auki hefur hann farið þangað í tengslum við vinnslu verksins. Hann segist þó ekki enn hafa séð verkið full-unnið. „Við erum búnir að vera að vinna með tölvumódel af þessu öllu síðustu 2 árin. Óformleg opnun er búin en samt ekki með öllu efninu sem verkið hefur. Það á að vera á klukkustundar langri lúppu en núna er það að keyra á 20 mínútna langri lúppu. Það er prufutími í gangi og fólk getur skráð sig ef það vill sjá verkið.“

Flugvallarmenning í Singapúr er nokkuð ólík þeirri sem ríkir hér á landi en þar er ekki óalgengt að flugvellir gegni fjölbreyttum hlutverkum. „Það er mjög fyndið að koma og tala við stjórnendur flugvallarins en þetta er ekki bara umferðarmiðstöð heldur miklu meira en það.“ Hann líkir flugvöllum í Singapúr við verslunarmiðstöðvar. „Þetta er svona svolítið eins og mollið. Fólk kemur með fjölskyldunum sínum og fær sér að borða á veitingastöðunum. Fólk fer á flugvöllinn um helgar og svo aftur heim.“ Á flugvellinum má finna fjöldann allan af þjónustu af ýmsu tagi, þar á meðal orðalaust períóduleikhús.

Þó gegnir flugvöllurinn sannarlega hlutverki umferðarmiðstöðvar að auki en áætlað er að 55 milljón flugfarþega ferðist um völlinn á ári hverju.

Verk fyrir ómannlega dansara

Auk ART+COM kemur þýsk verkfræðistofa, MTK frá Munchen, að verkinu. „Þau hanna vélbúnaðinn og margt af þessu er hlutir sem þurfti að finna upp á, mótorar sem þurfti að finna upp og öryggisvottanir. Hjá þeim eru hátt í 100 manns sem koma að þessu og hjá mér og ART+COM að minnsta kosti 20 í viðbót.“

Hann segir að verkið sé einskonar afurð fyrri reynslu úr samstarfi með ART+COM. „Við erum búin að þróa þessa týpu af verki í gegnum síðustu þrjú sem við höfum gert. Við lítum á að við séum að gera verk fyrir ómannlega dansara. Þetta er svo svakalega háþróuð tækni sem við erum að nota.“