„Ólafía er frábær golfari“

Cheyenne Woods, bandaríski atvinnukylfingurinn og náfrænka Tigers Woods, fer fögrum orðum um Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur og segir að hún sé frábær golfari. „Hún slær gríðarvel. En ég mundi segja að hún væri sterkust á flötinni. Hún æfir mikið pútt og vippur, ég hef séð það. Og það skilar sér.“

Undanfarnar viku hafa þær Ólafía og Woods æft saman fyrir LPGA mótaröðina. Woods segir að Ólafía sé góð landkynning, hún hafi ekkert vitað um Ísland fyrr en þær kynntust í Wake Forest háskólanum. Þar hafi þær spilað saman í háskólaliðinu og orðið nánar. „Ég hélt sambandi eftir að ég útskrifaðist. Nú nokkrum árum síðar erum við báðar á LPGA-mótaröðinni. Það hefur verið svo spennandi að fylgjast með hvað Ólafía hefur gert fyrir landið sitt. Ég vissi ekkert um Ísland áður en ég hitti hana. Hún hefur haft mikil áhrif á golfið á Íslandi og ég held að það eigi bara eftir að aukast. Henni vegnar örugglega vel í LPGA-mótaröðinni og hún verður ímynd golfíþróttarinnar á Íslandi“.

Mynd með færslu
 Mynd: Ísþjóðin  -  RÚV
Ólafía Þórunn og Cheyenne Woods

Ólafía Þórunn er viðmælandi Ragnhildar Steinunnar í Ísþjóðinni á sunnudag. Þar segir hún meðal annars að það sé fjárhagslega erfitt að vera atvinnumaður á uppleið. Hún sé styrkt af ýmsum fyrirtækjum en þurfi til að mynda að borga þátttökugjald á mótum, greiða kylfusveini laun og sjá um allan ferðakostnað. „Ég fæ ekkert borgað nema ég nái niðurskurðinum á mótinu. Þetta er mikil pressa en ég reyni að hafa ekki miklar áhyggjur. Ég er heppin að hafa fyrirtæki sem styrkja mig eins og KPMG. Ég hef líka í gegnum tíðina haldið styrktarmót og svo er ég frumkvöðull í mér og hef búið til myndir með hvatningarorðum sem ég hef selt.”.

Sérstaka athygli erlendra fréttamanna vekur að Ólafía sé frá svo fámennu landi en það vekur ekki síður athygli að hún gekkst undir aðgerð á kjálka skömmu eftir að hún tryggði sér þátttökurétt á mótaröðinni. Í þættinum segir Ólafía okkur frá togstreitunni sem fylgdi því að fara í aðgerð á þessum tíma. „Mér fannst betra að klára þetta og svo vonandi losna ég við spangirnar í kringum júní“, segir Ólafía Þórunn.

Mynd með færslu
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Mynd með færslu
Atli Þór Ægisson
vefritstjórn
Ísþjóðin með Ragnhildi Steinunni