Óhefðbundnar keppnisgreinar fyrir vestan

05.08.2017 - 21:07
Fjórtán lið háðu drulluga keppni í mýrarboltanum í dag. Þetta er í 14. sinn sem keppnin fer fram en í fyrsta sinn í Bolungarvík. Í Holtsfjöru í Önundarfirði var keppt í sandkastalagerð.

Aðalheiður Kristjánsdóttir, keppandi í liðinu Fílabeinsturninn, sagði leikinn ekki ganga nógu vel þegar fréttastofu bar að gerði. Hún sagði þó að liði skyldi snúa vörn í sókn: „Já, við ætlum að rústa þessu.“

Hún segist ánægð með mýrarboltann í ár. „Já, þetta er mjög gaman.“ – „Þetta er sko í fyrsta skiptið okkar og þetta er geðveikt,“ segir Unnur Jónsdóttir, liðsfélagi Aðaheiðar. Þær löggðu leið sína vestur úr Borgarfirðinum og segja þetta ekki vera í síðasta sinn. „Nei, klárlega ekki,“ segir Aðaheiður.

Kristinn Viktor Jónasson og Símon Þór Hansen voru mættir vestur í fimmta sinn.

Hvernig finnst ykkur að hafa þetta í Bolungarvík?

„Það er svolítil breyting, aðrir vellir svo við þurfum að læra þetta upp á nýtt,“ segir Símon Þór. „Það er minni drulla, við þurfum að læra inn á þetta,“ segir Kristinn Viktor. „Maður þarf að kunna aðeins meira fótbolta en maður þurfti á ísafirði,“ bætir Símon Þór við.

Og fyrir fólk, sem vilja ekki velta sér uppúr drullunni, þá var sandkastalakeppnin í Holti í Önundarfirði haldin í 21. sinn.

„Við erum að gera hérna Önundarfjörð,“ segir Viktor Breki Guðlaugsson, 13 ára Reykvíkingur. „Við ætluðum fyrst bara að gera fjörð en svo byrjuðum við bara á að gera þetta.“

„Við vorum mjög mikið að hugsa hvað við ættum að gera og komum með mjög margar hugmyndir en ákváðum svo að gera bara stóran sandkastala,“ segir Auður Makaya Mashinkila, 14 ára Reykvíkingur.

Haldið að hann sé sigurstranglegur í dag?

„Ég veit það ekki alveg. Það gæti alveg verið,“ segir Freyja Stígsdóttir, 15 ára, sem byggir sama kastala og Auður.

Dómnendin skoðar auk útkomu, undirbúning og tækni. „Svo erum við að fylgjast með handbragðinu, okkur grunar að það séu allavega tveir múrarar hérna  í dag til dæmis. - En skemmtileg tæki líka,“ segir Hanna Jónsdóttir, ein dómara keppninnar í ár.  

Hvað finnst ykkur skemmtilegast við að gera svona sandkastala?

„Mér finnst samvinnan skemmtileg, að gera eitthvað svona saman,“ segir Freyja.

Og samkvæmt dómnefndinni er það ekki síst samvinnan sem vegur þungt í keppninni. Hanna segir samkeppnina harða. „Já, það er ekkert eitt sem stendur uppúr, ekki ennþá allavega.“

Á morgun fer svo fram íslandsmeistaramótið í Kubbi á Flateyri.

 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV