Og hvað svo?

13.04.2017 - 12:55
Rithöfundurinn Sölvi Björn Sigurðsson fjallar um óvissuna. Það sem er væntanlegt. Það sem er yfirvofandi. Það sem gerist. Eða mun ekki gerast.

Eftir Sölva Björn Sigurðsson:

Homo electrus

Þau sitja uppáklædd í hárauðum salnum, tæplega þrjátíu á hverjum bekk, og bíða eftir að píanósnillingurinn stígi á svið. Ég sit á efstu svölunum og horfi niður, reyni að telja símana sem glóa í myrkrinu en kem ekki á þá tölu. 
    Svo margt að gerast sem er ekki hér, en þó hér.
    Einhver hefur skilið eftir hákarl á ástralskri gangstétt. 
    Að lokum fellur þögn á salinn. Við heyrum fyrstu tónana sindra í gegnum þögnina. Hún er raunveruleg, þessi tónlist, er það ekki, sem hljómar frá sviðinu upp á svalir? Ég er að hugsa um Moravec og kenningar hans um sýndarveruleikann. Möguleikann á því að öll skynjun okkar sé byggð á óáþreifanlegri reynslu. Descartes er ennþá góður heim að sækja, en við erum komin inn í Sæborgina. 
    Að tónleikunum loknum förum við á veitingastað þar sem boðið er upp á pönnusteikan hlýra. Á næsta borði situr fjölskylda og skóflar þögul í sig mat á meðan þau fletta fram og aftur í símtækjunum, faðirinn og unglingsdóttirin; móðirin grúfir sig yfir bók úr gráu plasti, tengda snúru í innstungu við hlið hennar. Þeim fara engin orð á milli. Ég veit ekki hvaðan þau eru en ákveð að þau séu útlendingar, þótt þau líti reyndar út fyrir að vera úr Safamýrinni. Hvert öðru útlensk, álykta ég heimspekilega, svona þögul og föst inni í tækjunum sínum. Kannski tíndu þau vegabréfunum sem leyfðu þeim að nálgast hvert annað. Allt búið af diskunum og enn ekki orð. 
    Ég verð meðvitaður um kærleikann sem ég finn til líkama míns, hæfileikans til að tala og snerta. Þykir vænt um þetta hold sem á seinna eftir að deyja og rotna. Ég verð ekki óðamála en ég reyni samt að snakka eitthvað skemmtilegt. Mér finnst það við hæfi á veitingastöðum.
    Þegar liðið er á máltíðina snýr faðirinn á næsta borði sér að konunni og fær lánað hjá henni snúrutækið til að hlaða sígarettuna sína. Þjónninn tekur vélrænt við plastþynnu úr hendi mannsins og leggur hana að ferhyrndum kubb sem hann heldur á. Þau hafa greitt fyrir matinn og ganga hljóð út í kvöldið. Skömmu síðar fylgjum við á hæla þeirra.
    Fólkið utan við veitingastaðinn talar tungumál, það skellir upp úr og hreyfir útlimina. Húð, æðar, hjarta, taugar, líf. Þar sem við göngum heim á leið og sneiðum framhjá hópnum veit ég samt að það er álitamál hvort þau eru þarna eða ekki. Lögmál veruleikans hafa fallið svo hratt undir smásjá efans síðustu mánuði. 
    Þegar ég kem heim, ennþá heillaður af tónleikunum og hinum frábæra flutningi píanósnillingsins, leggst ég upp í sófa og reyni að lesa. En ég næ ekki að einbeita mér. Ég reyni að skrifa og kveiki samtímis á sjónvarpinu og fer í tölvuna, spila tölvuleik á meðan ég skrifa og les og horfi á bíómynd. Kvikmyndin er með Joaquin Phoenix í aðalhlutverki. Hún heitir Her og fjallar um mann sem verður ástfanginn af vélveru, forriti raunar eða einskonar stýrikerfi. Þetta er frekar sorgleg mynd, eða kannski er ljúfsár betra orð, en jafnframt mjög trúverðug. Á meðan ég horfi á hana segir internetið mér að í vikunni hafi kínverskur maður gengið í það heilaga með vélmenni. Ég poppa ekki, læt hlýrann af veitingastaðnum duga. Ég tek upp bókina sem ég er að lesa en fer svo aftur í tölvuna. Klára að horfa á myndina. Skrifa, les, fletti í tölvunni. Á heimasíðu Guardian er að finna margar áhugaverðar greinar um tæknina. Ég legg frá mér bókina. Hætti að skrifa. Sekk ofan í internetið. Ég er homo erectus – sem á óljósum tímapunkti sem ég tók varla eftir – varð homo electrus. 
    Dýralífinu er lokið hjá þér, herra minn, segir Marc O’Connell í grein sinni um leiðina að ódauðleikanum. Líf þitt sem vél er hafið. Hann vitnar þarna meðal annars í gamla bók eftir vélmennafræðinginn Moravec, sem segir að framtíð mannkyns felist í því að við afsölum okkur líkamanum og tengjum vitundina tölvum. Þeir eru kallaðir transhúmanistar, þeir sem sterkast trúa á það að innan tíðar munum við ekki lengur tilheyra dýraríkinu. Einn þeirra, Ray Kurzweil, segir að ekki séu nema fimmtán ár eða svo þar til tölvukerfin taki að gera vitundarlíf okkar á allan hátt öflugra og skilvirkara. Þar munum við líka getað lifað næstum endalaust, í nær endalausum tilbrigðum okkar sjálfra. Þetta rímar við annað sem ég heyrði nýlega á internetinu, í fyrirlestri nóbelsverðlaunahafans Smoot, um að sirka þrjátíu ár séu þar til almenningur geti dánlódað á sér heilanum gegn gjaldi sem samsvarar um hálfsmánaðar verkamannalaunum. Og svo er það Randal Koene sem rekur fyrirtækið Carboncopies, sem segir að þegar niðurhalið af vitundarlífi okkar verði fullkomnað, einhvern tíma á fyrri hluta þessarar aldar, munum við geta valið því samastað næstum hvar sem er. Við verðum vélfugl, fúin spýta, svartur pardus, fiskur, veggmálning. 
    Ég er gras og ég græ yfir allt. 
    Ég er ævintýraleg ópera.
    Það hljóta óneitanlega að fylgja því viss þægindi að vera laus við þennan líkama sem gubbar og fretar og fitnar og heimtar brennivín á milli þess sem hann snýtir sér og lætur sig dreyma um snertingu annarra. Hjartasjúklingar munu ekki lengur fagna því að fá langþráðan gangráð, þeir geta bara hengt litla hjartað sitt upp á jólatré ef þeir vilja, eða notað það sem pökk í einhvers konar skotleik. Biðlistar á spítölum tilheyra fortíðinni og þeir sem kjósa að koma sér fyrir í vél munu eflaust læra að gera við sig sjálfir. 
    Ég er skógurinn sem vildi vera fiðla.
    Ég er veggmálning. 
    Vitund mín er sandurinn á fingrum þér.
    Ekki feykja mér burt. 
    Er þessi umbreyting mannkyns kannski löngu afstaðin? Kann það að vera að einhvern tíma á öðrum tíma siðmenningarinnar, hér eða í öðru sólkerfi, fyrir hundrað þúsund árum, milljón árum, milljarði ára, hafi homo electrus komið sér fyrir í gaddavírum geimloftanna þar sem rödd hans hvíslar enn að okkur sakleysingjunum á jörðu niðri: lítið upp, litlu sýndarvinir, þið sem eruð ekki til, ég er Guð?
    Jafnt og þétt síðustu vikurnar hafa fréttir borist af því að forstjóri og stofnandi rafbílaframleiðandans Tesla, Elon Musk, hafi uppi áform um að tengja mannsheilann stafræna svæðinu með tækni sem byggist á ígræðslum. Neuralink, fyrirtækið sem fer fyrir rannsóknunum, hefur það að markmiði að bræða manneskjur saman við hugbúnað og gera þeim þannig kleift að standa jafnfætis eða halda í það minnsta í við vélverurnar sem þróast nú miklu hraðar en við sjálf. Heilaígræðslurnar eiga að vera hressandi fyrir minnið og gera okkur kleift að vera beintengd tölvubúnaðinum gegnum líkamann. Hálf manneskja, hálf tölva, ef svo má segja, og Musk er hér vitanlega ekki á ókönnuðum slóðum. Það er nefnilega til núlifandi fólk sem drekkur mjólk og fer í sturtu á morgnana og er þannig séð ekkert frábrugðið okkur hinum, að því undanskildu að það hefur þegar gengist undir viðlíka ígræðslur. Einn þeirra er prófessorinn Kevin Warwick, vélverufræðingur við háskólana í Coventry og Reading, betur þekktur sem kapteinn Sæborg í samfélagi gervigreindarfræðanna. Árið 2002 lét Warwick þessi skjóta eitt hundrað elektrónum inn í taugakerfi sitt í þeim meðvitaða tilgangi að tengja það við tölvu og frá henni við internetið. Mannkynið, eins og við höfum þekkt það, er að hans mati að líða undir lok. 
    Ég fletti áfram í internetinu og horfi á viðtal við slóvenska heimspekinginn Zisek. Hann segist ekki vera pessimisti þegar kemur að tæknilegri framþróun en bendir þó á möguleikann á því – og hætturnar sem kunna að fylgja – að hugsunum okkar verði beinstýrt með utanaðkomandi forritum, jafnvel án þess að við höfum hugmynd um það. Hvar greinum við mörkin milli vélanna og okkar sjálfra? Höfum við kannski þegar glatað þessu skynbragði sem við teljum undirstöðu andlegrar heilbrigði? Og í öðru samhengi, hvað verður í raun um mannkynið þegar vélmenni hafa tekið að sér störf þess? Eigum við öll eftir að búa á Ibiza?
    Fyrir fáeinum dögum sagði japanska tryggingafyrirtækið Fukoku Mutual Life Insurance upp rúmlega 30 starfsmönnum sem um langt skeið höfðu unnið að því að reikna út tryggingabætur til viðskiptavina. Eftirmaður starfsmannanna, sem byggður er á Watson stýrikerfi IBM-framleiðandans og því freistandi að kalla doktor Watson, mun nú þegar hafa tekið til starfa og vera byrjaður að spara Fukoku Mutual háar upphæðir með aukinni skilvirkni. Slíkir töframenn gætu hæglega breiðst út um víða veröld á næstu árum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir vinnandi fólk. Nýleg bresk rannsókn leiddi til dæmis í ljós að hátt í milljón manns sem nú starfa í opinbera geiranum í Bretlandi gætu hafa misst störf sín í hendur vélmenna árið 2030. Önnur bandarísk rannsókn sýnir að gervigreindarvélar eru orðnar jafnhæfar sérmenntuðum læknum í að greina húðkrabbamein á byrjunarstigi. Hvað þá með dyraverði, landslagsmálara, húsasmiði, öryggisverði? Það er haft fyrir víst að vopnaleitarskannarnir sem sáust fyrst í vísindatryllinum Total Recall, frá árinu 1990, séu nú komnir í notkun á þremur fjölförnum samgöngustöðum í Bandaríkjunum. Í stað þess að bíða í óralangri röð og láta öryggisverði þreifa sig hátt og lágt gengur fólk nú í gegn án þess að á því sé sýnilega leitað. Það tekur skannana ekki nema brot úr sekúndu að greina hvort viðkomandi beri á sér vopn.
    Hinn vestræni homo electrus heldur að hann sé frjáls en er það líklega ekki. Það er beinlínis fyrirsjáanlegt að í mjög nálægri framtíð muni fólk í auknum mæli hópast á flótta undan alsjánni, venjulegt fólk muni eyða fúlgum fjár í búnað sem ver heimili þess og einkalíf gegn alvökulu auga snjallforritanna. Við munum vilja losa okkur við algóritmana, gps-punktana, öll yndislegu skótilboðin sem berast okkur í rómantíska göngutúrnum í stórborginni. Við stöndum framan við Nike búðina og bingó! Síminn segir 30% afsláttur í dag. Komdu inn. Ég er gras og ég græ yfir allt.
    Verður þá til nýtt mannkyn þar sem stéttskiptingin felst í því hverjir njóta góðs af gervigreindinni og hverjir gjalda hennar? Ég horfi aftur á viðtalið við Zisek og hugsa um það sem hann segir. „Að vera manneskja er að hafa lágmarks skynbragð á mörkin milli eigin hugsana og ytri raunveruleika. Hver veit hvað gerist þegar þessi mörk verða rofin? Kannski er það tálsýn en mér finnst ég enn upplifa sjálfan mig innan hugsana minna, og að raunveruleikinn sé þar fyrir utan. Ég er ekki runninn beint saman við ytri veruleika. Fyrsta spurningin sem að þessu snýr snýst um vald. Hver mun stjórna þessu stafræna svæði? Þetta er risavaxin pólitísk spurning. Munum við upplifa okkur áfram sem frjálsar verur eða verður okkur stýrt af stafrænum vélbúnaði, án þess að vera þess einu sinni meðvituð?“
    Í tónleikasalnum glóa símarnir. Ég er ævintýraleg ópera. Ég trúi á alla töfra. 
    Í júní 2014 safnaði Konunglega félagið í Lundúnum saman nokkrum sérfræðingum til að hitta tvennskonar verur í gegnum tölvuskjá. Önnur þessara vera var manneskja, lífvera af holdi og blóði, hin var gervigreindarvera. Sérfræðingar úr ýmsum áttum þjóðfélagsins, svo sem leikarar og vélverufræðingar, spjölluðu við báða til að gera sér far um að meta hvor væri hvor. Því er skemmst frá að segja að vélveran Eugene Goostman þótti svo manneskjuleg, svo sannfærandi óratór og samræðuséní, að andstæðingur hennar af mannkyni varð að játa sig sigraðan og lúta því að vera álitinn vél. Eugene Goostman hefur verið ljáður persónuleiki, hæfileiki til að vega og meta aðstæður út frá ákveðinni skapgerð. Hann er eflaust hæstánægður með frumvarpið sem ein nefndin á vegum Evrópusambandsins lagði nýlega fram um persónuréttindi vélmenna. Hér er hið minnsta allt á fleygiferð. DeepMind, gervigreindarfyrirtæki í eigu Google, hefur hannað forrit sem lærir sjálft að bæta við sig þekkingu á grunni þeirrar sem það er matað á. Ólíkt okkur manneskjunum sem virðumst hafa tilhneigingu til að henda út einum upplýsingum fyrir aðrar þá gleymir forritið aldrei neinu; hæfileiki þess til að auka við vitsmuni sína að eigin frumkvæði virðist takmarkalaus. Og hvað þá? Verðum við bráðum undirsátar þessa kynstofns sem við fundum upp sjálf? Eða fundum við hann kannski ekki beinlínis upp sjálf? Erum við kannski einungis stökkbreytingargenið sem færir líf á jörðinni yfir í annars konar veruleika?
    Atóm. Fruma. Dýr. Vitund. Ást. 
    Raunveruleiki. 
    Raunvélaleiki.
    „Við höfum eytt svo miklum tíma í að rannsaka mannkynssöguna,“ segir Stephen Hawkings aðspurður um þessi tímamót sem við virðumst standa á „og við skulum bara viðurkenna að hún er mest megnis saga af heimsku. Það er því kærkomin tilbreyting að fólk skuli vera að rannsaka framtíð vitsmunanna.“
    Atóm og gras, og svo röddin í Eugene Goostman. Ég legg frá mér tölvuna, slekk á sjónvarpinu, læt augun fljóta yfir síðurnar í bókinni. 
    Við erum komin inn í Sæborgina. 
    Við sitjum uppáklædd í hárauðum salnum.
 

Mynd með færslu
Vefritstjórn
Og hvað svo?