Og hvað svo?

12.04.2017 - 18:51
Rithöfundurinn Auður Ava Ólafsdóttir fjallar um óvissuna. Það sem er væntanlegt. Það sem er yfirvofandi. Það sem gerist. Eða mun ekki gerast

Eftir Auði Övu Ólafsdóttur:

Góðir áheyrendur, í eina tíð tíðkaðist ávarpið góðir hálsar, við þekkjum líka góðir landsmenn, þegar öll þjóðarskútan er undir segir maður Góðir Íslendingar, þegar sagt er hlustendur góðir ríkir hins vegar meiri trúnaður frá eyra til eyra. Nú man ég ekki hvort Halldór Ásgrímsson notaði ávarpið Góðir samvinnuskólamenn – mig „rekur ekki minni til þess’’ – takið eftir því hvernig ég orða það– því þótt ég hafi skrifað bæði skáldsögu og leikrit um minnið sem vísindamenn segja staðsett – já einmitt, á sama stað og ímyndunaraflið í heilanum, þá ætla ég ekki að fjalla um valkvætt minni í dag heldur um framtíðina. Og ég ætla að spá fyrir þjóð minni sem ég held að þjáist líkt og ég af viðvarandi áfallastreituröskun nema það heiti áfallastreitukvíðaröskun og stafar af því að það sem ekki átti að geta gerst – aftur– hefur tilhneigingu til að endurtaka sig.

Ég ætla að spá um það sem er væntanlegt, um það sem er yfirvofandi, það sem gerist og það sem mun hugsanlega ekki gerast og ekki fara frá tækinu því ég ætla að spá því að á eftir vori komi sumar með enn meiri bráðnum Breiðamerkurjökuls en líka flugnasuði. Og ég ætla að spá því að fólk muni halda áfram að verða ástfangið og börn að heilla okkur með einlægni sinni.

En fyrst kemur smá pólitík, það verður eins og nálarstunga í blóðprufu, ég segi nú og síðan allt bú, þannig að ekki slökkva á mér, því á eftir fáið þið djús og ískex. 

Fyrir tveimur árum hitti ég á bókmenntahátíð í Suður Frakklandi þekktan prófessor í hagfræði sem kennir við háskóla í Bandaríkjunum. Hann sagði mér að hann hefði verið beðinn um að hjálpa Íslandi eftir hrun – þannig orðaði hann það:  hjálpa, semsé á eftir Guði – en ekki orðið við þeirri bón. Síðan dró hagfræðingurinn – og rétt að geta þess að við sátum þarna dálítill hópur saman – hagstjórnarfræðin saman í eitt fimm stafa orð til að útskýra fyrir viðstöddum hvað hafði komið fyrir Ísland: GRÆÐGI. Að graðka til sín og sinna. Að nóg sé aldrei nóg. Og hann útlistaði það nánar: „Greed is bad taste“ eða Græðgi er slæmur smekkur, sagði hann og ég játa að það situr dálítið í mér. Og bætti við: „Sú manneskja sem ekki er örlát er ekki áhugaverð”. Þar með lauk hagfræðikenningu um afleiðingar þess þegar fáeinir stjórnmála–og embættismenn tóku ákvörðun um mestu eignatilfærslur í einu ríki á lýðræðistímum, mestu hliðrun í valdakerfi lítillar þjóðar þegar örfáar fjölskyldur fengu fiskinn og bankana, sameiginlegar auðlindir annars vegar og sparifé þjóðar hins vegar. Ég heyrði því fleygt í heita pottinum – og mig rekur ekki minni til nákvæmlega í hvaða heita potti – að það sem  ólíkt sé með gömlu og nýju eignamönnunum (við getum kallað þá kapítalista hina fyrri og hina síðari) sé að áður hafi menn sætt sig við að línóleumgólfdúkar seldust verr eitt árið– sum árin var þetta hark– síðan hafi áhugi þjóðar á gólfdúkum skyndilega vaknað á ný. Nú sé þetta öðruvísi því einungis gróði fari í vasa eiganda, tapið fer hins vegar annað hvort á eignalaust félag – Global Holding four– sem tekið er til gjaldþrotaskipta, eða á hjörðina sem rekur þetta samfélag og er ýmist kölluð almenningur eða ríki eða sveitarfélag. Ef marka má heita pottinn, sem ég veit náttúrlega ekkert um, þá þekkja sumir þessara nýju eignamanna ekki orðið samfélagsábyrgð. Það þýðir að eigendur fisksins– svo dæmi sé tekið–  geta ef þeim sýnist svo, og eins og komið hefur á daginn, mætt hingað með skipin sín, skrapað landhelgina og látið síðan vinna aflann í Downingstræti þar sem þeir eru með heimilisfesti, nema þeir sigli með hann til Sviss sem er víst líka eyja– eða tvo hringi í kringum jörðina eins og hver rennilás áður en hann lendir á gallabuxum.

Góðir hlustendur, eins og þið heyrið er ég komin út á ystu nöf, eiginlega alveg að bjargbrúninni, gott ef ekki með tærnar framaf og grængolandi hafið 300 metrum fyrir neðan. Og nú vanda ég mál mitt því maður veit ekki alveg hver þekkir hvern og hver á hvað hér í samfélaginu og ekki vill maður eiga þátt í því að Ríkisútvarpið verði selt þýskum banka og lagt niður. Útvarpsstöðin yrði samt rekin áfram í þrjár vikur af nýjum eigendum og mun þá heita Sunset Limited FM Holding Star og fjalla um dauðans óvissa tíma, nei fyrirgefið hér hef ég mislesið –hlaupið á milli lína–, hún mun leika lög eftir nýuppgötvaða poppstjörnu, björtustu vonina, Elton John.

Sem minnir mig á– að fyrir rúmu ári rakst ég á fyrirsögn á visi.is þar sem stóð „30 milljarða í sjóð fyrir börnin” og smellti á fréttina til að vita um hvaða velferðarsamtök væri að ræða; hvort það væri kannski Save the Children eða Unifem eða SOS barnaþorp. Svo reyndist þó ekki vera heldur var um að ræða íslensk systkini sem bjuggu í auðmannhverfi í og svokallaðan varasjóð þeirra sem faðir þeirra hafði stofnað fyrir börnin– við skulum kalla hann Jóakim önd svo enginn verði fornemaður. Nokkrum árum árum hafði hann keypt hér banka og ég man ekki lengur með leyfi annars hvors einkavæðingarflokksins það var. En ég man að ég hugsaði – ja hvað hugsaði ég? Ég hugsaði; það eru ansi mörg núll til að bera á grönnum herðum.

Fréttin var reyndar úrdráttur úr því sem við köllum drottningarviðtal (og hefur á dularfullan hátt horfið af netinu, bæði pappírsútgáfan og netútgáfan en hægt er  ð finna tilvitnanir í viðtalið í öðrum fjölmiðlum), í raun kynning á sjálfsævisögu– af meiði þeirrar bókmenntategundar sem kölluð eru réttlætingarrit og munu þekkt frá fornöld og byggja á stílbragðinu sjálfshóli, ólíkt svokölluðum Játningabókum – en frægast slíkra rita eru Játningar Ágústínusar kirkjuföður– þar sem menn játa syndir sínar, og því fylgir hið háleita, guðfræðilega hugtak; iðrun, sem er forsenda þess að geta síðar orðið dýrlingur.

Og hvað svo? Ætlaðirðu ekki að spá ?

Ég held góðir hlustendur, að það verði kannski ekki það uppgjör og réttlæti í samfélaginu sem margir vonuðust eftir, kannski af því að minnið er á sama stað og ímyndunaraflið í heilanum, kannski af því að of margir eru með flekkaðar hendur.

Hins vegar gætum við í framtíðinni– sem byrjar frá og með núna– haft þetta öðruvísi ef við viljum. Við gætum t.d. valið okkur öðruvísi stjórnmálamenn því það er til fullt af heiðarlegu fólki í þessu landi sem hugsar skynsamlega um samfélagsmál og tekur hagsmuni heildar fram yfir einkahagsmuni. Í stað samfélags sem byggir á aðdáun, karlmanna hver á öðrum og samstöðulögmálinu „þú gerir mér greiða og þá geri ég þér greiða’’,  myndum við setja ný viðmið og spyrja ; er hann eða hún góð manneskja, (og rétt að minna á að enginn verður góður með því að tala um dyggðir sínar) myndum við treysta honum eða henni fyrir barni eða kettinum okkar dagspart? Les hann eða hún ljóð ? Er hann eða hún jafnvel með ljóðabók í hanskahólfinu í bílnum ? Skilur hann þau verðmæti fyrir samfélag sem búa í menntun og sköpun ? Skilur í alvöru ? (Svo ég setji hlutina í stóra og háleita samhengið þá var einhverju sinni sagt um þýska skáldið Brecht að í kvæðinu um Hirsifræið hafi hann goldið mannkyninu þær stríðsskaðabætur sem geri aðrar óþarfar.)
Og borgar þessi nýja tegund af stjórnmálamanni í sameiginlega pottinn, ætlar hann að reka þetta litla samfélag með okkur eða reynir hann að koma peningunum sínum undan?

Og við hljótum líka að spyrja: gefur hann bestu mjólkurkýrnar okkar mönnum sem hafa hvorki þekkingu né áhuga á viðkvæmu sálarlífi kúa?
En fyrst og fremst myndum við velja stjórnmálamann– það er inntökuskilyrðið –sem leggst ekki sáttur á koddann á kvöldin þótt hann eigi sjálfur mat í ískápnum ef samborgari hans á það ekki.
Og hvað svo?

Ja „Þegar fólk er búið að fá óskaplega mikið af framförum’’, skrifaði Þórbergur Þórðarson í Sálminum um blómið, – og við skulum skipta orðinu framfarir út fyrir peninga – og segja þegar fólk er búið að fá óskaplega mikið af peningum, „þá fer því að leiðast. Þá fer fólk aftur að tala um veðrið og blómin og steinana og að hlusta á söng stjarnanna.”

Það var sá sami Þórbergur og ákvað sjálfur eigin eftirfarandi grafskrift á legsteini sínum: „Liggur hér Þórbergur. Lifði í fátæktarlandinu. Dó í forheimskunarlandinu. Dó í forheimskunarlandinu’’– tvítekið, altso á Esperanto.

Ég lofaði að spá fyrir sumrinu og stend við það og segi að þeir sem ekki eru þegar ástfangnir af maka sínum eða einhverjum öðrum munu verða það í síðasta lagi í sumar. Og ég ætla að gera gott betur og skipuleggja sumarleyfið fyrir öll okkar sem ekki keyptum banka nýlega.

Ég legg til að við sem búum hér á suðvesturhorninu skreppum vestur, að við hvílum okkur á brennisteinsskýinu frá Hellisheiðarvirkjun og líka á arseniki og 14 krabbameinsvaldandi efnum frá stóriðjunni sem við erum umkringd á alla vegu– sem reyndist nú þegar betur var að gáð bara vera ímyndun, þ.e. a.s. arsiníkmengunin, því kaffi hafði slest á hellu hjá konu í Keflavík sem var að skerpa á könnunni, maður kannast við það. Við héldum að við værum stödd í Músagildrunni eftir Agötu Christie en það reyndist vera Múmíndalur. En EF það skyldi nú samt sjóða aftur upp úr hjá konunni – af því að það sem átti ekki að geta gerst hefur tilhneigingu til að gerast aftur– þá legg ég semsagt til að við hvílum okkur á Sílikoni og förum vestur á firði í sumar og tökum með okkur sirka 5 kiljur á mann og 3 ljóðabækur og getur verið að við þurfum að“þroskast upp í sumar bækur” og það er í fínu lagi. Við þurfum ekki að leigja okkur þyrlu því við getum tekið strætó (Ekki það að mér finnst reyndar að við ættum að bjóða öllum hreyfihömluðum í þyrluferðir um landið)
og við látum ekki svimandi lofthræðslu í skriðum á þjóðvegum þessarar moldríku þjóðar hindra okkur í að kanna innstu lönd okkar og ókunnar jarðir –  ég hugsa reyndar alltaf; hvernig er að fæða hér barn um vetur og þurfa að fara allar þessar vegleysur –hvenær leggur maður (= kona) eiginlega af stað

Og við finnum okkur hentuga laut með strá í munni og tiltölulega hreina samvisku– ég segi ekki að hún sé eins og gljáfægður koppur– og yfir okkur er stór himin og ég er ekki endilega sammála Rimbaud sem sagði að maðurinn væri „dapur og ljótur undir víðáttu himinsins’’. Það verður flugnasuð og fjaðrablik í lofti og þótt hann rigni þá gerir það ekkert til því við þræðum dropana upp á perlufestar. Við verðum ekki með þjóna með súshíbakka, heldur vefjum við smjörpappír utan af brauði með gúrku, og við verðum heldur ekki með sinfóníuhljómsveit sem spilar fyrir okkur Parsival eftir Wagner til að skilja náttúruna, því við höfum hrossagaukinn.

Það væri líka fínt að geta vaðið út í ískalda á og kannski hugsum við ; einn góðan veðurdag verð ég ekki lengur til, eða við segjum með Borges „tíminn er fljót sem dregur mig með sér en ég er fljótið, og þar á ég ekki við straumþunga á sem grefur hratt undan okkur– heldur í mesta lagi hnédjúpa, eiginlega er ég frekar að hugsa um hjalandi læk, allavega  þannig kringumstæður sem eru nauðsynlegar til að skapist vísir að nýrri hugsun, einhverju sem við höfum ekki hugsað áður, á meðan við bíðum eftir tækifæri til að mannast.

Við gætum t.d. hugsað um þá staðreynd að allt mannkyn eigi sér sömu formóður í Afríku fyrir 100.000 árum. Það er ekki langur tími. Einn 100 þúsund kall!

Við gætum jafnvel komið auga á örn og trúið mér, vænghafið eins og eins og gömul herflugvél sé að hefja sig á loft. Og ef við erum heppin þá sjáum við kannski spánnýja skýjategund sem heitir Asperitas og er í laginu eins og bylgjur hafsins, einsog hraunkvika nema í loftinu. Menn hafa í 60 ár barist fyrir að fá þetta ský viðurkennt, hugsið um það, hlustendur góðir.

Því við ætlum að safna minningum, ekki gleymsku.

 

 

 

Mynd með færslu
Vefritstjórn
Og hvað svo?