Og hvað svo?

14.04.2017 - 12:55
Rithöfundurinn Kristín Ómarsdóttir fjallar um óvissuna. Það sem er væntanlegt. Það sem er yfirvofandi. Það sem gerist. Eða mun ekki gerast.

Eftir Kristínu Ómarsdóttur:

Glefsur úr dagbók ónúmeraðrar framtíðar – eða tíðar sem heitir hvorki fram né aftur

Mars 2017 : Vorhanskarnir hleypa kuldanum í gegn, fjórða daginn í röð verður mér úti óskaplega kalt á fingrunum, ég tók hanskana of snemma í notkun, en kannski er kuldinn forboði framtíðarlegs kuldahrolls – verð ég áhangandi sjala, lokaðra glugga? Ég hef hlotið fína þjálfun í köldum vistarverum, húsakynnum, finnst þau eftir þjálfunina betri en heit, ég þoli líka ágætlega útikulda, kýs að sofa í köldu herbergi, en kuldinn undanfarið læsir fingurna eða kremur, hann er ný umkvörtun. Þegar maður er barn hlakkar maður til þess að verða stór. Þegar maður er á miðjum aldri læsist sjóndeildarhringurinn, verður ekki lengur byrjun eða hlið, opnar dyr. Á ég að tileinka mér að hlakka til að verða gömul? Hvert verður mitt skjól þangað og þar? Mun ég búa við skjól? Það er fallegt orð : skjól, og rímar við kjól, ól.

Það þykir gott að vera bráðþroska barn og seinþroska miðaldra. Vorhanskarnir mínir eru bráðþroska.

~

Seint um haust nafnlauss árs : Í gærkvöldi seint komum við okkur fyrir í káetunni með hafurtaskið of þreyttar til að vaka frameftir. Á meðan báturinn lagði úr höfn lagðist þú í kojuna, opnaðir Bókina um Veginn; og hélst bókinni uppréttri einsog gengur er þú lest, þannig sofnaðir þú og svafst, með upprétta bók í hendi. Svefninn læsti þig í stellingunni. Ég var að leita að einhverju yndislegu um svefn að lesa en bækurnar okkar eru neðarlegast í farangrinum, úr skúffu greip ég bók sem var skilin eftir, um njósnara og hjúkrunarkonu í eldgömlu stríði og sofnaði en svaf laust, án svefnlásanna, kíkti á fréttir á tveggja tíma fresti, fylgdist með þegar úrslit kosninganna í stærsta landi heims byrjuðu að teygja sig í aðra áttina, fylgdist með hvernig nokkrir spjallborðsmenn í einni heimsborginni brugðust við þegar úrslitin urðu kunn og vörðust fregninni með afneitun og óráðssækinni von, ég ákvað að vekja þig ekki fyrr en þú sjálf vilt. Við sigldum rólegan sjó. Ekkert getur huggað þig nú nema kannski tíminn og varla það. Ég er of óreynd og óundirbúin til að vita hvort tíminn muni hugga þig, til að vita hvort til sé huggun. Enginn þekkir rót framtíðarinnar. Deginum vörðum við í að taka uppúr og hengja upp fötin og raða og skipuleggja hvað fengi að liggja niðri og hvað kæmist fyrir í þröngu rýminu, við sáum ekki vel fyrir bleytunni í augunum og tókum (of) skjótar ákvarðanir. Fyrir kvöldmat settumst við niður í borðsalinn, drukkum vermút, opnuðum ljóðabók sem kenndi okkur að gleyma fortíðinni og hætta að borða kjöt.

~

Í fyrsta og eina skiptið sem ég fann ilm af liljum vallarins sat ég um kvöld – það gerðist fyrir mjög margt löngu - á verönd undir djúpu þakskeggi, á bekk úr hvítum spýtum við hvítt borð úr spýtum - manstu, þú sast þarna líka einu sinni sem oftar og þá var sumar hjá þér - restar kvöldverðarins lágu á stofuborðinu inni, það var kveikt á olíulampa, ljósið stirndi á rauða vökvann í glösunum. Maður frá öðrum heimshluta en ég lýsti einmanaleikanum og nöprum kulda mannlífsins sem hann fyndi fyrir í bíómyndum nágrannalanda minna, svo hallaði hann sér upp að húsveggnum og lýsti því hvað gott væri að reykja gras eftir bragðgóðan málsverð, það gerði fólk heima hjá honum. Allir kringum borðið horfðu löngunarfullt á tóbakspoka konunnar sem enn reykti, eitt okkar rúllaði handa öllum sígarettu, næsta umræðuefni : kona frá landlausri ætt sagði að móðir hennar hefði ráðlagt henni : Dóttir, flytji allir í austurþorpið skaltu flytja í áttina þangað sem straumurinn liggur ekki. Næsta umræðuefni varð flótti og flóttafólk. Ég man enn heitan ilminn af liljum vallarins. Þá spurði konan sem enn reykti : Hvert flýjum við þegar og ef það gerist einhvern tímann að ég og margir landa minna fáum ekki unað lengur í landinu okkar, stærsta landi heims?

~

Nóvember eða desember óþekkts árs : Ég átti ekki von á að það snjóaði útá sjó og hvað snjókorn minna á stjörnur. Fyllir snjókoma mann einsemd, spurði ferðafélagi mig á þilfarinu og stóð undir regnbogalitaðri regnhlíf. Við losuðum okkur við hluta farangursins ofan í sjóinn, köstuðum dótinu fyrir borð, snjórinn blessaði dótið á meðan ferðafélagi okkar hélt áfram að reikna út einmanaleikann. Djúpið lokaði brunninum, við földum inná okkur lyklana að gömlu geymsluhólfunum. Á meðan ég háttaði í kvöld fylgdistu með mér hátta mig um leið og þú last fyrir mig upphátt : „Lokaðu munni þínum, láttu aftur augun og byrgðu eyrun; þá muntu verða áhyggjulaus alla ævi. En ef þú ert opinmynntur og sífellt önnum kafinn, muntu aldrei verða óhultur.“ (58) Ég er alltaf blaðrandi, viðurkenndi ég sakbitin, lestu meira, bað ég svo og lagðist í fæðingarfötunum undir snjókornamynstruðu sængina okkar.

~

Áramót, óþekkt tímamót : Skipsbarinn hefur tæmst af öllu nema vermút og nokkrum flöskum með vodka, fyrirhyggjusöm og sjóuð þerna gleymdi freyðivíninu á leynistað, staðsetningin birtist henni síðan loksins í síðasta draumi ársins. Sjóveikir þjónar sem nást ekki í bælið opna hirslurnar og sækja kassana og við skálum, grípum glösin og flöskurnar og matinn og diskana áður en glerið rennur af borðunum og hillunum. Höllin ljómar af skrauti.“ (59) Hafið súrnar og hitnar, fiskar deyja, kóralrif eyðileggjast. „Þegar menn óttast ekki það sem þeir ættu að óttast mun hið skelfilegasta koma fyrir þá,“ (76) lastu fyrir mig uppúr vegahandbókinni í morgun. Ég skil ekki kaflann um stóru ríkin og smáu, hvað ertu eiginlega búin að lesa hann fyrir mig oft og útskýra hann? Sumir verða aldrei gamalvitrir er ég hrædd um.   

~

SKJÓL. Á meðan við drukkum vermútið með kvöldnestinu - flaskan sem við hnupluðum af skipsbarnum ætlar að duga okkur - töluðum við um orðið skjól. Skjól vinar míns var vinnan, sagðir þú, skjól vinar míns var flaskan, sagði ég, skjól eins var að vera stöðugt á fartinu, sagðir þú og bættir við : skjól mitt ert þú og skjól þitt er ég. Í vindi leitar maður skjóls til að fjúka ekki. Hefur þú fokið, spurðir þú, ekki bókstaflega eða tæknilega heldur svona ljóðrænt úr stað? Nei. Ég vildi að ljóðrænn vindur hefði feykt mér eitthvert, á annan stað, einsog laufi, frækorni. Í roki leitar maður skjóls. Á venjulegum tímum öryggis og þegar öryggið glatast á umrótatímum hvert leitar maður skjóls? Í söngva og bækur, málshætti, spádóma, hugmyndafræði og foringja? Þú sagðist ekki vita það beint. Er rok núna, spurði ég. Ekki strax, svaraðir þú en það skellur bráðum á, hvínandi epískur stormur sem feykir öllu til, húsum og byggingum, brúm og flugvélum, en ekki fjöllum. Sjáðu fjöllin þarna. Þú bentir útum lestargluggann. Þarna undir voru einu sinni borgir horfinnar siðmenningar.

Við höfum losað okkur við mestan hluta farangursins.

~

Ert þú hrædd? Þú mátt ekki vera hrædd. Ef þú ert hrædd hafa þeir náð til þín. Hverjir, spyrð þú saklaus af öllu. Mennirnir sem stjórna geðslagi stemmingarinnar, góða skapinu og pirringnum, ruglinu, stemmaranum. Hvaða menn eru það? Ég veit það ekki, ég get ekki bent á þá. Þeir haga sér einsog guðir. Ef guð deyr, segir þú, skilur hann eftir tóm fyrir menn að fylla upp í. Ó, segi ég og grúfi andlitið ofan í lófana, lófarnir eru skál full af dularfullum vökva, óræðu efni, handarbökin gríman sem ég sýni þér. Ég er ekki hrædd, segir þú, þú ert hrædd. Já.

~

Snemma í morgun ákváðum við að hætta að ferðast með gervitækni, í bíl, flugvél, lest, löngu hættar og búnar að gefast upp á að treysta á tæknina. Á árabát? Á reiðhjóli þar eð hjólið er knúið af manni sjálfum? Við tókum fram pokann sem geymir ljóðræna vindinn og við höfum geymt lengi og ekki fengið okkur til að slíta sambandinu við en við ákváðum að borða árbítinn áður en við opnum pokann.

~

Ónúmeruð nótt. Rafmagnið má klárast áður en morgnar því ég er búin að skrifa upp flest allar bækurnar af kindlinum mínum, í nótt skrifa ég upp bókina þína - þú skírðir hana svo óvenjulegu nafni að það má aldrei gleymast - ég hætti aldrei að tala við þig þó þú sért hvergi sjáanleg - þetta er síðasta eintakið í heiminum. Ég er komin á blaðsíðu 70%, ég á eftir að skrifa upp 30% bókarinnar, lokahlutann skrifa ég á afgangsbili rafhlöðunnar sem blikkar í hægra horni skjásins. Ó, ég má ekki vera að þessu hangsi, ég botna vermútinn - í flöskuna fel ég skeyti með fræjum og kasta í hafstraumana á morgun - og skrifa hratt, ef ég næ ekki öllu rita ég restina eftir minni. Verst er að ég næ ekki að skrifa ritgerðina þína sem fjallar um að vera glöð og frjáls. Og hvar skildir þú eftir öll ljóðin þín um svefninn?

~

Þegar þú fagnar næst sautjánda júní - útskýring neðanmáls : sautjándi júní var fullveldisdagur íslenska lýðveldisins sem stofnað var 17. júní árið 1944 og náði aldrei háum aldri punktur punktur punktur - þegar þú fagnar næst sjálfstæðinu á útiskemmtuninni niður á torgi viltu þá horfa í kringum þig þaðan sem þú stendur í spariskónum þínum á grasblettinum og sjá þá : dádýr hvar sem þú sérð líkama í mynd konu. Parið þarna til vinstri : karl í jakka plús dádýr. Þarna í hóp saman stórt dádýr, tvö pínulítil og tíu ára strákur. Þegar þú horfir í kvöld á fréttirnar sjáðu þá : dádýrshöfuð flytja fréttirnar kvenröddu. Og þegar þú heimsækir næst ömmu á elliheimilinu viltu þá gera það fyrir mig að nálgast aldið og fallegt dádýr með gleraugu og smekk sem situr til borðs í hópi annarra aldinna dádýra og öldunga - útskýring : öldungar voru karlkyns gamalmenni - líttu svo niður og sjáðu allar dádýrsklaufarnar á gólfinu í  hópi flókainniskóa. Farðu á ball : á ballinu dansa strákar við dádýr. Pomp pomp pomp. Á gólfinu. Næst þegar þú mætir í brúðkaup horfðu á karlinn lyfta slörinu af höfði dádýrsins, koss. Dádýrin sitja fyrir utan húsin og bíða róleg rigningarinnar.

~

Einsog langalangaafi minn ritaði í höndunum upp bækur sem niðjar hans geyma undir koddunum skrifa ég þetta hér.

~

Mars 2017 : Vetrarhanskarnir í vetur voru of heitir, þeir voru hvorki bráðþroska eða seinþroska því ylurinn sem skinnið veitir fann ekki árstíðina sína, veturinn, veturinn týndist, á bakvið gallerí í sýningarglugga týndi ég vetrarhönskunum sem bíða þess einhvers staðar á leynilegum stað að fá að þroskast.

 

Mynd með færslu
Vefritstjórn
Og hvað svo?