Og hvað svo?

17.04.2017 - 12:55
Rithöfundurinn Árni Þórarinsson fjallar um óvissuna. Það sem er væntanlegt. Það sem er yfirvofandi. Það sem gerist. Eða mun ekki gerast.

Eftir Árna Þórarinsson:

Já, og hvað svo?       

Svo gerist það að heimurinn ferst.

Svo gerist það að ég kveð þennan heim sem fórst.

Eða er þetta kannski öfug röð? Ég kveð áður en heimurinn ferst. Eða gerist það samtímis: Að ég ferst um leið og heimurinn?

Hvað sagði ekki Bubbi Morthens? Þið munuð öll deyja.

Þar hefur hann, sem oftar, rétt fyrir sér. En – hann sagði ekki í hvaða röð við mundum öll deyja. Munu allir deyja samtímis? Dýr, jurtir, flugur og fiskurinn í sjónum, auk mannfólksins?

Og, ef ekki, hvað svo?

Þetta er spennandi.

Hvað tekur við?

Íslamska ríkið? Eða – verður kannski Donald Trump síðasti maðurinn á jörðinni? Þeir Pútín saman, kannski með Marine Le Pen sem væntanlega ættmóður nýs mannkyns í dýnamískum trekanti?

Hvort heldur sem er – gætu einhverjir haldið því fram að mannkynið hætti á toppnum? Eða, eins og sagt er í íþróttum og stjórnmálum: Toppaði sig á réttum tíma?

Ef svarið er að allir, einnig Trump, Pútín og Íslamska ríkið, myndu deyja á sama tíma – hvað þá?

Tæki kannski við heimur sem er tómur? Eða heimur sem er tómur af öllu sem er lifandi og þar með deyjandi en um leið fullur af ... vélmennum ... eða véldýrum ... með gervigreind?

Ef svo, geta þá vélarnar endurnýjað sig, tímgast, búið til nýjar kynslóðir af sjálfum sér?

Eða munu þær líka deyja? Hvað segir Bubbi um það? Munu þær renna út á síðasta söludegi – sem væri þá nýtt orð yfir dánardægur?

Og áður en að því kæmi – væri þá gervigreindin búin að finna svar við spurningunni: Og hvað svo?

Ef einhverjir eru enn að hlusta gæti þeim fundist að ég svari engum spurningum nema þá með öðrum spurningum og sé fastur í myrkrinu, einhvers konar ófrjórri svartholsgervispeki sem ekki leiðir til eins eða neins, hvað þá til góðs. Þið sem ekki hafið skipt yfir á Gullbylgjuna segið kannski: Svona svona ... Ekki þessa bölsýni. Það eru til aðrar spurningar, jafnvel önnur svör, við spurningunni sem er yfirskrift þessa pistils.

Það gæti verið rétt. Þetta gætu verið „falskar fréttir“ hjá mér. Ég biðst því velvirðingar og byrja aftur.

Og hvað svo?

Svo gerist það að heimurinn batnar. Það verður hugarfarsbreyting. Mannkynið hættir að grafa undan sjálfu sér og öllum öðrum lífverum með ofbeldi, stríðsrekstri, þjóðarmorðum, hryðjuverkum, nauðgunum, misrétti og misnotkun þeirra sem minnst mega sín, með fátækt, auðræði, arðráni, mengun og umhverfisspjöllum, siðleysi, spillingu og lygum, svo dæmi séu tekin. Í stað eigingirni og illsku kemur samúð og gæska. Umhyggja og virðing fyrir öllu lífi koma í stað græðgi, eyðingar og rányrkju.

Endir verður bundinn á þessa langvinnu sjálfsvígsilraun okkar, þessa aldagömlu sjálfseyðingarhvöt. Mannkynið verður aftur eins og til var stofnað í aldingarðinum forðum. Eins og aldingarðyrkjumaðurinn góði segir í Being There: „Í garðinum hefur gróðurinn sínar árstíðir. Fyrst kemur vor og sumar, en síðan fáum við haust og vetur. Og svo fáum við vor og sumar að nýju.“

Hvernig líst ykkur á þetta svar við spurningunni “Og hvað svo?”

Betur? Ég hélt það.

En svo fer maður að velta fyrir sér: Hvernig förum við að þessu? Hvernig getum við framkallað þetta svar?

Mér hefur skilist að til þess að breyta framtíðinni þurfi að byrja á nútíðinni. Til þess að breyta heiminum þurfi maður að breyta sjálfum sér fyrst. Eins og spámaðurinn sagði: Þá fyrst varð ég fullkominn þegar ég öðlaðist auðmýktina.

Til að sættast við umhverfið þarf fólk að sættast við sjálft sig.

Hvernig er það hægt, eftir öll þessi ár, eftir allar þessar aldir af breyskleika og ófullkomleika? Hvar skal byrja? Á innri manninum? Eða ytri manninum? Hvorugur getur án hins verið, ekki satt?

Prófum að byrja á þeim síðarnefnda, á skelinni sem umlykur skelfiskinn. Líkamleg vellíðan hlýtur að hafa áhrif á andlega vellíðan. Hvernig getur maður fært líkamann nær þeirri fullkomnun sem einhvers staðar býr í okkur?

Já, ókei, hætta að reykja og drekka áfengi, fara í ræktina og borða hollan mat. En eitt af því sem gerir jákvætt svar við spurningunni „Og hvað svo?“ borðliggjandi er fjölbreytnin í úrræðum sem okkur bjóðast. Við getum til dæmis valið um íslenskt fæðubótarefni sem unnið er úr rækjuskel og stuðlar að verndun vefja og uppbyggingu stoðkerfis. Við getum notað liðbætiefni sem unnið er úr vatnsmeðhöndluðu brjóski úr völdum fisktegundum, ríku af virku og nýtanlegu kondrótín súlfati, kollageni, mangan og kalki og er meðhöndlað með áhrifaríkum ensímum sem gerir bætiefnið mjög frásoganlegt og virkt. Við getum tekið náttúruleg þyngdarstjórnunarefni sem stjörnur á borð við Kim Kardashian og Melissa McCarthy hafa notað með frábærum árangri og gerð eru úr ávextinum Garcinia Gambogia. Hann inniheldur Hýdroxýsýru eða HCA en hún eykur m.a. seratonin í heilanum sem er sama efni og dregur úr tilfinningalegu áti. Til að bæta meltinguna getum við tekið góðgerlablöndu úr sjö sýruþolnum gerlastrengjum, hvítlauk og grape seed extract.

Þessi frábæru svör til að efla okkar ytri mann hef ég fundið með því einfaldlega að fletta blaði. Og ef ég fletti yfir á næstu síðu fæ ég svör fyrir innri manninn. Í einni af kirkjum landsins er boðið upp á djúpslökun sem byggir á jóga nidra–fræðum, auk – og takið eftir því – auk fyrirbænar. Við þurfum því alls ekki að hlusta bara á andlega leiðtoga eins og biskup Íslands eða páfann  – eða Bjarna Benediktsson. Það er svo margt margt annað sem við getum gert. Við getum farið í kundalini jóga, ashtanga, restorative jóga, heitt jóga, yin jóga og rope yoga. Við getum stundað Sat nam rasayan hugleiðsluheilun. Okkur bjóðast Qi gong jafnvægisæfingar, tai–chi bardagaæfingar, kjarnþjálfun og möntrukvöld sem næra bæði huga og líkama og styrkja því bæði ytri manninn og innri manninn.

Svona, góðir áheyrendur, getum við bætt okkur og þá batnar heimurinn í framhaldinu. Svörin við spurningunni „Og hvað svo?“ eru því innan seilingar. Við þurfum bara að seilast í rétta átt, lenda á réttri blaðsíðu, ekki á forsíðunni, eins og ég gerði fyrir mannleg mistök í fyrri hluta þessa pistils, heldur kafa dýpra. Við verðum að lesa innblaðið. Á forsíðunni birtast sjúkdómseinkennin, en í innblaðinu bíður lækningin.

Og hvað svo?

Svo skálum við –  í góðgerlablöndu úr sjö sýruþolnum gerlastrengjum, hvítlauk og grape seed extract.

Og þá verður þessi spurning óþörf um aldur og ævi.

Mynd með færslu
Vefritstjórn
Og hvað svo?