Ofurtölvuver í Háskóla Íslands

11.04.2011 - 18:39
Mynd með færslu
Norrænt ofurtölvuver verður starfrækt á Íslandi í tilraunaskyni næstu þrjú árin. Samkomulag þess efnis var undirritað í dag. Háskóli Íslands var einn þriggja norrænna háskóla sem sóttu um að starfrækja verið og varð hlutskarpastur í samkeppninni.

Þrjár stofnanir í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, sem hafa rekið ofurtölvuver hver í sínu landi, ákváðu að setja upp sameiginlegt ver hér á landi. Ofurtölvur hafa margfalda reiknigetu á við venjulegar tölvur og geta tekist á við mörg reikniverkefni samtímis.


Samanlögð fjárfesting í þessu verkefni nemur tvö hundruð milljónum króna. Háskólar og rannsóknastofnanir samnýta ofurtölvuverið. Í frétt frá menntamálaráðuneytinu segir að þátttaka Íslands í verkefninu feli í sér aukin tækifæri til samstarfs um vísindarannsóknir og nýsköpun og markaðssetningu Íslands sem áskjósanlegs staðar fyrir orkufreka samhliða tölvuvinnslu.