Öfgar í veðurfari aukast enn

21.03.2017 - 16:51
GRE01-19981102-LONDON, UNITED KINGDOM: Polar Bears in Alaska, USA, in September this year. Greenpeace claim Monday 02nd November that the effects of global climate change, including the melting and retreat of Arctic sea ice, is affecting polar bear
Síðasti El Niño hafði fordæmalaus áhrif á hafís.  Mynd: EPA  -  GREENPEACE
Árið 2016 er það hlýjasta frá upphafi mælinga, hafís hefur aldrei verið minni og lítið lát er á hækkun sjávarmáls og sjávarhita. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, WMO, þar sem afar dökk mynd er dregin upp af loftslagsbreytingum af mannavöldum og afleiðingum hennar.

WMO birti í dag árlega skýrslu sína um veðurfar á jörðinni í aðdraganda Alþjóðlega veðurdagsins á fimmtudag. 

Í skýrslunni er haft eftir aðalritara WMO, Petteri Taalas, að skýrslan staðfesti að árið 2016 sé það hlýjasta síðan mælingar hófust. „Hvorki meira né minna en 1,1 gráðu yfir því sem var fyrir iðnbyltingu, sem aftur er 0,06 gráðum heitara en fyrra met frá 2015. Hlýnunin er í takt við aðrar breytingar sem við sjáum í loftslaginu. Magn koltvísýrings í andrúmsloftinu slær sífellt ný met og áhrif manna á loftslag jarðarinnar verða sífellt augljósari,“ segir Taalas.

Skýrslan er „sláandi“, segir David Reay, loftslagsvísindamaður við Edinborgarháskóla, í samtali við breska blaðið The Guardian. „Það hefur aldrei verið jafnmikið undir eða eins rík þörf fyrir samhentar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum,“ segir Reay.

El Niño hefur mikil áhrif

Það var þó ekki bara útblástur gróðurhúsalofttegunda sem stuðlaði að þessari methlýnun, heldur hafði veðurfyrirbrigðið El Niño líka sitt að segja. El Niño verður á þriggja til sjö ára fresti og einn slíkur hófst í árslok 2015 og teygði sig inn á árið 2016 með tilheyrandi veðuröfgum.

Loftslag jarðar er yfirleitt 0,1-0,2 gráðum heitara á árum þegar El Niño gerir vart við sig en á meðalári. Í þetta sinn hafði El Niño meðal annars þau áhrif að hafís mældist fjórum milljónum rúmkílómetra minni í nóvember 2015 en á meðalári. Það er fordæmalaust frávik.

Sjávarhiti mældist sá næsthæsti í sögunni í fyrra — hann var einungis hærri árið 2015. Hann hækkaði reyndar lítillega á norðurhveli jarðar en lækkaði á móti á suðurhvelinu.

Þegar kom að lofthita voru öfgarnar hvergi meiri í fyrra en við norðurheimskautið. Við norðurstrendur Rússlands, Kanada og Alaska mældist meðalhitinn víða þremur gráðum yfir meðalhita áranna 1961-1990. Á Svalbarða var meðalhitinn 6,5 gráðum hærri en 1961-1990 og 1,6 gráðum hærri en árið áður, sem einnig var met, að því er segir í skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.

Skýrslan verður kynnt fyrir fulltrúum aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og sérfræðingum á sviði loftslagsmála á fundi á fimmtudag.