Ofbeldi og ölvunarakstur í höfuðborginni

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Ölvaður maður var handtekinn í austurborg Reykjavíkur um eittleytið í nótt, grunaður um heimilisofbeldi. Var hann færður í fangageymslu þar sem hann bíður yfirheyrslu, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Töluvert virðist hafa verið um ölvun í gærkvöld og nótt og mikið um að menn hafi hvorki látið ölvun né aðra vímu aftra sér frá því að aka bifreið.

Allmörg dæmi um þetta eru tíunduð í tilkynningu lögreglu og þar kemur líka fram að margir þeirra sem gripnir voru við akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna voru einnig réttindalausir og höfðu ýmist verið sviptir réttindum eða aldrei haft þau. Einn hinna drukknu og réttindalausu ökumanna var að líkindum gripinn við þessa iðju í tíunda sinn í nótt. Loks var maður handtekinn í Þingholtunum eftir að lögregla hafði ítrekað verið kölluð til vegna drykkjuláta hans. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV