Oddur Arnþór Jónsson syngur Schubert

Klassísk tónlist
 · 
Úr tónlistarlífinu
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: Listvinafélag Hallgrímskirkju

Oddur Arnþór Jónsson syngur Schubert

Klassísk tónlist
 · 
Úr tónlistarlífinu
 · 
Menningarefni
17.03.2017 - 14:20.Una Margrét Jónsdóttir.Úr tónlistarlífinu
Sönglög eftir Franz Schubert eru á efnisskrá tónleika sem fluttir verða í þættinum „Úr tónlistarlífinu“ sun. 19. mars kl. 16.05. Það er barítónsöngvarinn Oddur Arnþór Jónsson sem syngur, en Somi Kim leikur á píanó. Tónleikarnir fóru fram á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju og voru hljóðritaðir í Hallgrímskirkju 25. febrúar sl.

 

Þetta eru fyrstu ljóðatónleikar Odds Arnþórs hér á landi, en hann hefur vakið mikla athygli fyrir söng sinn á seinni árum. Hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem Bjartasta vonin árið 2014 og hann hefur einnig hlotið verðlaun erlendis, til dæmis sigraði hann í Brahms-keppninni Pörtschach í Austurríki, og varð þriðji í Schubert-keppninni í Dortmund. Þá hefur hann sungið stór óperuhlutverk bæði hér heima og erlendis, m.a. titilhlutverkið í „Don Giovanni“ á liðnu ári hjá Íslensku óperunni.  Somi Kim er ný-sjálensk, fædd í Suður-Kóreu, en starfar í London. Hún hefur oft hlotið verðlaun fyrir píanóleik sinn, m.a. Gerald Moore-verðlaunin fyrir meðleikara. Á tónleikunum flytja þau mörg af þekktustu sönglögum Schuberts svo sem Söngva hörpuleikarans og lög úr söngvaflokknum Svanasöng, en einnig fá sjaldheyrðari lög tónskáldsins að hljóma, svo sem „Auf der Bruck“ og „Totengräbers Heimweh“. Umsjón með tónleikunum í útvarpi hefur Una Margrét Jónsdóttir.