Obama gagnrýnir heilbrigðisstefnu Trumps

13.05.2017 - 05:46
President Barack Obama and first lady Michelle Obama participate in a comedy show presented by the United Service Organizations (USO) and the military at Andrews Air Force Base, Md., Thursday, May 5, 2016. The event marks the USO's 75th anniversary
 Mynd: AP  -  FR170079 AP
Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú, gagnrýnir núverandi stjórnvöld harðlega fyrir að rifta reglugerðum um skólamáltíðir sem hún barðist hart fyrir að koma í gegn. Hún furðar sig á því að það sé gert að pólitísku þrætuepli að bjóða nemendum upp á hollar máltíðir í skólum.

Obama var gestur á heilsuráðstefnu í Washington í gær. Hún átti stóran þátt í því á sínum tíma að koma á fót reglugerð um að nemendur fái hollar máltíðir í skólum sínum. Þeim reglugerðum hefur verið snúið við af ríkisstjórn Donalds Trumps, og lá Obama ekkert á skoðunum sínum á ráðstefnunni í gær, samkvæmt breska dagblaðinu Guardian. Hún bað gesti um að hugsa hvers vegna einhverjum sé sama um að börnin þeirra borði ruslfæði. Nú verði að sjá hver ástæðan er fyrir því. „Þið verðið að stoppa og hugsa: Hvers vegna viljið þið ekki að börnin fái góðan mat í skólunum? Hvað er að ykkur?" 

Hún sagðist forviða á því að pólitík skuli blandað í þetta málefni. Hún sagði að ef einhverjum er sama um að börn séu að borða ruslfæði, þá sé þeim sama um börn. Það sé hlutverk mæðra að krefjast þess að stjórnmálamenn leiki sér ekki að lífi barnanna. 

Auk reglugerðarinnar um skólamáltíðir hefur landbúnaðarráðuneytið ákveðið að fresta gildistöku reglugerðar um að veitingastaðir, matvörubúðir og aðrir matsölustaðir greini frá kaloríumagni í mat þeirra. Obama var jafn hissa á þeirri hugsun og sagði núverandi stjórnvöld ekki vilja að almenningur viti hvað hann lætur ofan í sig. Hún hvatti neytendur, hvaðan sem þeir koma og sama hvaða stjórnmálaflokk þeir styðja, að berjast gegn þessu.

Obama nefndi aldrei Trump eða aðra embættismenn á nafn í viðtalinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV