Óbærileg nákvæmni nútímans

23.06.2017 - 15:52
Sigurbjörg Þrastardóttir var á útiskónum og velti fyrir sér táknkerfum á tímum sýndarveruleikans.

 

Sigurbjörg Þrastardóttir skrifar:

Góðir hlustendur – ég fór með unglingi til útlanda. Þetta var ekki fyrir ýkja löngu síðan og útlandið var New York. Og út frá nokkru sem ég hef verið að íhuga, um ímyndunarafl og raunveruleika, fannst mér afar merkilegt, svo ekki sé meira sagt, að fylgjast með undirbúningi unglingsstúlkunnar. Hún hafði aldrei fyrr komið til Ameríku, og var yfir sig spennt – raunar hef ég aldrei vitað neinn jafn spenntan fyrir nokkurri ferð, sem var mjög gleðilegt – en samt var að sumu leyti eins og hún hefði komið þangað áður. Í aðdragandanum flutti hún nefnilega næstum inn í Google kortagrunninn á netinu, fletti upp öllum nærliggjandi götum, verslunum, kaffihúsum og görðum í grennd við hótelið, í Street View-viðmótinu, og lærði þannig beinlínis að rata um hverfið löngu áður en við vorum byrjaðar að pakka niður hérna megin hafsins. Sama gilti um vörurnar í búðunum; eins og að drekka vatn staðsetti hún þær snyrtivörur sem voru í sigtinu, og stærðir spjara, þannig að þegar út var komið þurfti hún varla að ráðfæra sig við neinn, gekk hiklaust inn í búðirnar, sótti vörurnar og borgaði, með fermingarpeningunum. (Ég man þegar maður fór til útlanda á svipuðu reki á liðinni öld og hafði í besta falli þrjár síður í landafræðibók til þess að átta sig á áfangastaðnum. Forngripurinn sem maður er orðinn.)

 

Sumsé, þessi pistill fjallar ekki um sjálfan unglinginn, sem var auðvitað stórskemmtilegur ferðafélagi og fann sér þegar til kom margt til að undrast í stórborginni, heldur fjallar hann um það einkenni flestra hluta í samtímanum að vilja líkja sífellt betur eftir veruleikanum. Í fararbroddi þessarar þróunar eru auðvitað ljósmyndatæknin, kvikmyndin og þrívíddin – ég skora á þá sem hafa ekki kynnt sér Google Earth, Street View eða sambærileg forrit að fletta heimili sínu upp – sem lyfta fram og blása út það sem áður var túlkað í tvívídd. Tölvuleikir hafa líka elt þessa þróun, eða jafnvel rutt brautina – þúsund raunsönn dæmi má nefna, ég læt duga FIFA-knattspyrnuherminn, t.d. í PlayStation, þar sem sjá má markskot frá mörgum sjónarhornum, til viðbótar við svipbrigði og sannfærandi fagn leikmanna sem eru eftirmyndir nafngreindra stjarna. (Það var gaman að kynnast þér, sviplausi PacMan). Kynningar arkitekta á framtíðarhverfum eru ekki lengur tvívíðar á örk, heldur í þrívídd á hreyfiskjá – þar sem framtíðarfólkið er jafnvel á ferli, í góðu skapi í góðu veðri. Það er nefnilega líka hægt að laga eftirmynd veruleikans að væntingum.

Og talandi um veður – einu sinni, fyrir ekki svo löngu síðan, var hálfskýjaður morgundagur táknaður á veðurkortum sjónvarps með hring sem var gulur til hálfs og svartur til hálfs á móti. Nú blika sólargeislarnir á skjánum og rigning er ekki teiknuð strik, heldur alvöru dropar sem falla og falla veðurfréttatímann á enda.

 

Ég veit ekki hvað manni á að finnast – er þetta kannski orðið einum of? Mun t.d. enginn sakna gamaldags sónarmynda, nú þegar fregnir herma að þrívíddarmyndir af ófæddum börnum séu það nýjasta fyrir verðandi foreldra? Er enginn sem saknar baksýnisspeglanna, eða hreinlega hálssveiginganna, nú þegar fjarlægðarskjárinn í mælaborðinu segir fólki hvað það eigi að bakka langt?

Tækniþróun sem gerir allt skýrara, trúlegra og sannferðugra er örugglega frábær, já, hún er beinlínis lífsnauðsynleg í fleiri tilfellum en hægt er að telja upp, en um leið tapast snjallar hefðir og lærdómur sem margir áttu að venjast lengi, eða eyddu tíma í að temja sér. Og það má alveg sakna sumra slíkra táknkerfa. Til dæmis úr veðurlýsingum, til dæmis úr veröld landakorta og götukorta. Það krafðist ákveðinnar hæfni að rata eftir tvívíðu, abstrakt korti, rata eftir hnitakerfi, eftir siglingakorti … Hvað þýddu punktalínur, hvert benti örin? Þetta var ekki ósvipað því að horfa á snið að ósaumaðri flík. Þarna voru lífseigir lyklar – merkileg kerfi sem túlkuðu veruleikann en gerðu um leið ráð fyrir framlagi, eða ímyndun, þess sem úr þeim las. Þið fyrirgefið, það er eitthvert nostalgíuský hér yfir garðinum þar sem ég sit, ég ræð ekki almennilega við þetta (og þið athugið líka að ég get vel verið að segja þetta vegna þess að ég skil ekki, eða nenni ekki að læra á, öll beintengdu nútímaforritin.) Á sama tíma losna ég ekki við hugmyndina úr sögu Borgesar um landakortið af keisaradæminu, sem var jafnstórt og keisaradæmið sjálft.

 

Annar angi af raunveru-þróuninni er spurning sem hefur um hríð verið á floti: Hvers vegna viljum við ekki lengur láta koma okkur á óvart? Það má nefnilega halda því fram að hið stöðuga upplýsingastreymi hrifsi frá okkur það sem á útlensku heitir surprise og við eigum ekki almennilegt nafnorð yfir – þótt undrun eða skjálfti komist næst því. Allt frá númerabirtum símtækja – hver er að hringja, æ, já, er það þessi – yfir í sjónvarps- og útvarpsþætti sem segja strax frá öllu sem verður í þættinum, allt frá margra mínútna kvikmyndastiklum – nú, nú, gerist allt þetta í myndinni – yfir í sýndarveruleikaskoðunarferðir um borg á upplýsingamiðstöð í borginni sjálfri – dæmin eru ótal mörg og virðast miða að því að vera ávallt viðbúin, margítreka inntakið fyrirfram, búta undrunina niður í viðráðanlega skammta. Það er jafnvel hægt að horfa á fólk hugsa upp „óvænt tilsvör“: „Someone is typing a comment …“

Og þá vaknar enn ein spurningin: Hvaða áhrif hefur þessi nákvæmnisþróun á önnur svið þar sem veruleikanum er lýst, til dæmis á svið myndlistarinnar? Dvínar hæfileiki okkar til þess að njóta abstrakt-listar, ef allt er sífellt minna abstrakt í hversdagslegu amstri? Tapast abstrakt úr tísku, eða, verður það þvert á móti meira spennandi, eða aðkallandi, sem mótvægi við ofurraunsæi tækjanna? Við þessu er auðvitað ekki einhlítt svar, en getur verið skemmtilegt að spekúlera í.

 

Ennfremur, að lokum, því pistlinum verður að fara að ljúka áður en ég missi eitthvað út úr mér um hólógramtónleika eða spjaldtölvur með pappírsáferð: Er kannski einföldun að segja að „táknkerfin” séu á undanhaldi með þrívídd, sýndarveruleika og nákvæmari tækni? Eru þessar nýju upplifunar-leiðir ekki einmitt bara enn eitt kerfið, sem kallar á lestur og við tileinkum okkur án þess að taka eftir því? Bakkmyndavélarskjárinn í bílnum okkar er ekki raunverulega planið fyrir aftan mann, heldur mynd af planinu fyrir aftan mann. Þótt hann líti sannfærandi út þurfum við að muna – og munum kannski ósjálfrátt – að hann er staðgengill, hann getur bilað, það þarf að lesa upplýsingarnar … o.s.frv.

Innri túlkunarhæfni okkar er sífellt að störfum, góðir hlustendur. Simulacra, simulation – Jean Baudrillard var búinn að sjá þetta allt fyrir, það var fínt, og við gerum bara eins og hann þótt framtíðin komi – við höldum áfram að halda okkur vakandi. 

 

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi