Óæskilegt að fólk flauti og berji húsbíla utan

16.06.2017 - 13:09
Egilsstaðir, Fljótsdalshérað. Mynd tekin í júlí 2013. Mynd: Rúnar Snær Reynisson
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Dæmi eru að um að Íslendingar leggist á flautuna eða berji utan húsbíla erlendra ferðamanna sem gista utan tjaldsvæða. Verkefnisstjóri hjá Austurbrú segir mikilvægt að taka á málum án þess að sýna dónaskap. Á Austurlandi geta íbúar fengið útrás með því að festa miða á bílrúður og tjöld þeirra sem gista ólöglega.

Lögreglan smalar af bílastæðum á kvöldin

Það vakti athygli nýverið þegar ferðamenn slógu upp tjaldi rétt við leikskóla á Egilsstöðum, gistu yfir nótt og gerðu þarfir sínar í runna í Tjarnargarðinum. Reynt hefur verið stemma stigu við slíkri gistingu utan tjaldsvæða ekki síst svokölluðum Camper-bílum. Á Egilsstöðum var lögreglusamþykkt breytt og gisting utan tjaldsvæða bönnuð. Lögreglan hefur farið kvöldrúnt af og til og beint mönnum á tjaldsvæðið en ekki beitt sektum.

Missa sig

María Hjálmarsdóttir, stýrir vinnu við að áfangastaðinn Austurland á vegum Austurbrúar. Hún segist hafa heyrt af mörgum tilvikum þar sem íbúar taka að sér að segja ferðamönnum til syndanna. „Ef þetta er ítrekað að gerast á sömu stöðunum þá hafa aðilar bara bankað og misst sig kannski á fimmta bíl. Margir vita ekki hvernig þeir eigi að orða þetta. Verða reiðir eða flauta og benda,“ segir María.

Vinsamlegir miðar

Hún segir reiði íbúanna skiljanlega en til að beina kröftum þeirra í jákvæðari farveg voru prentaðir sérstakir miðar með vinsamlegum skilaboðum til þeirra sem gista ólöglega. „Ég held að það virki miklu betur en ef einhver bankar á og brjálast. Við viljum auðvitað að þau fari heim til sín með góðar minningar og góða sögu að segja.“

Ný skilti sett upp

Austurbrú ásamt sveitarfélögum hefur útbúið skilti sem sýna bann við næturgistingu og María segir að á næstu dögum verði þau sett upp þar sem þörfin er mest. Samræmt skilti sé í vinnslu hjá Vegagerðinni en það hafi ekki náðst fyrir sumarið.

Vilja gista í næði og með útsýni

Erfitt getur verið að banna ferðamönnum að gista á sumum áningarstöðum Vegagerðarinnar við þjóðveginn enda eru þeir ætlaðir til hvíldar. María segir að sumir ferðamenn sæki í að gista þar sem er fallegt útsýni og næði frekar en á tjaldsvæðum inni í bæjum. Mögulega þurfi að bregðast við þeirri þörf. „Þannig að við myndum leyfa gistingu inn á milli líka þannig að ég held að þetta sé alveg líka okkar mál,“ segir María.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Austurbrú
Mynd með færslu
 Mynd: Austurbrú
Nýtt skilti sem Austurbrú hefur hannað og rúðumiði handa brotlegum
Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV