Nýskráningar ökutækja sjaldan fleiri

03.05.2017 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚVBí  -  RÚV
Aukin sala á hinum ýmsu munaðarvörum er oftar en ekki merki um góðæri, þar má til dæmis nefna aukna sölu á nýlegum ökutækjum. Innflutningur á ökutækjum, stórum sem smáum, hefur stóraukist hér á landi undanfarna mánuði.

Innflutningurinn er slíkur að tafir hafa orðið hjá Samgöngustofu við skráningu nýrra ökutækja. Sömuleiðis hefur tollurinn verið að glíma við tafir þegar kemur að innflutningi. Slíkur er fjöldinn.

Samkvæmt Þórhildi Elínardóttur, samskiptastjóra Samgöngustofu, hefur skráningum ökutækja fjölgað mikið. Ástæða tafanna er að skírteina- og skráningadeild Samgöngustofu er hreinlega of fámenn til að ráða við álagið.

Þórhildur segir jafnframt að hún muni ekki eftir öðrum eins innflutningi en fjöldinn er ekki eina vandamálið sem Samgöngustofa stendur frammi fyrir. Skráning nýrra ökutækja er líka mun flóknari en áður var, sökum þess hve tæknivædd ökutæki eru orðin og það krefst meiri vinnu en áður af starfsfólki.

Enn fremur segir Þórhildur að Samgöngustofa hafi ekki fengið að nýta það aukna fjármagn sem fylgir gífurlegum fjölda skráninga til að fjölga starfsfólki og því hafi það varla við að skrá ný ökutæki. 

Þar af leiðandi hefur skírteina- og skráningadeild þurft að fá lánaða starfsmenn úr öðrum deildum Samgöngustofu til að anna eftirspurn.

Þessi frétt er skrifuð af meistaranema í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.

 

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður