Nýr grunnskóli á Bíldudal

13.05.2016 - 13:05
Arnafjörður , Bíldudalur , Suðurfirðir , Vestfirðir, Skóli, Grunnskóli
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  Ríkisútvarpið ohf
Börnum á Bíldudal hefur fjölgað til muna og í haust verður Grunnskóla Vesturbyggðar skipt upp í tvo sjálfstæða skóla, á Patreksfirði og á Bíldudal. Á sama tíma verður starfsemi grunnskóladeildarinnar á Barðaströnd breytt svo að börnum verður ekið yfir á Patreksfjörð.

Með auknum umsvifum í fiskeldi, kalkþörungaverksmiðju og afleiddum störfum hefur íbúum á Bíldudal fjölgað á undanförnum árum og þar með börnum. Friðbjörg Matthíasdóttir er forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð: „Það eru einungis um fjögur ár síðan að við óttuðumst að þau myndu fara niður í 17 börn og ef ég man rétt eru þau um 36 í dag. Það er mikill vöxtur á stuttum tíma. Mjög gleðilegt og við teljum að þeim muni fjölga enn frekar.“ 

Í stað sameiginlegs grunnskóla Vesturbyggðar þá verða til tveir sjálfstæðir skólar í haust og í stað skólastjóra og aðstoðarskólastjóra verða tveir skólastjórar. Þá verður Birkimelsskóli, sem er deild innan grunnskóla Vesturbyggðar, ekki starfrækt á Birkimel heldur verða krakkarnir keyrðir daglega á Patreksfjörð. Friðbjörg tekur fram að deildinni hafi ekki verið lokað heldur ráðist framtíð deildarinnar á næstu árum: „Fólkið hérna telur að möguleikar séu á því að byggðin muni eflast með yngra fólki og þá erum við bara opin fyrir samtali við íbúanna um hvað við gerum.“ 

 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV