Nýja húsið á að heita Veröld, hús Vigdísar

Innlent
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Nýja húsið á að heita Veröld, hús Vigdísar

Innlent
 · 
Menningarefni
18.04.2017 - 12:23.Bjarni Pétur Jónsson
Nýtt hús erlendra tungumála heitir Veröld, hús Vigdísar. Þetta var tilkynnt í hádeginu. Yfir eitt þúsund manns sendu inn tillögur að nafni á nýbygginguna sem á að hýsa Vigdísarstofnun, alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar og Vigdísarstofu sem er tileinkuð Vigdísi Finnbogadóttur.

Efnt var til samkeppni um nafn á nýbygginguna í mars. Yfir 800 tillögur bárust frá rúmlega eitt þúsund manns. Enginn var með þessa samsetningu og valnefndin komst að einróma niðurstöðu um að slá saman tveimur tillögum í eina. Tveir lögðu til meginorðið, Veröld, þau Hulda Egilsdóttir og Sveinn V. Ólafsson. Fimm lögðu til Hús Vigdísar; Ingunn Björnsdóttir, Jónína Hallgrímsdóttir, Kristín Helgadóttir Ísfeld, Sesselja Friðgeirsdóttir og Sigríður B. Guðjónsdóttir. 

Tilkynnt var um nafngiftina í hátíðasal Háskóla Íslands í hádeginu. Sigurvegarar í samkeppninni fá vegleg verðlaun, blóm og bókina Tungumál ljúka upp heimum. Það er jafnframt yfirskrift dagskrár sem hefst þegar stofnunin verður vígð við hátíðlega athöfn á sumardaginn fyrsta. 27 rithöfundar skrifuðu hugleiðingar sínar um gildi kunnáttu og tungumála og gáfu Vigdísi bókina þegar hún varð áttræð. Hún er illfáanleg en verður gefin út aftur í tengslum við opnunina. 

Sebastian Drude verður forstöðumaður Vigdísarstofnunar en hún er starfrækt á grundvelli samkomulags íslenskra stjórnvalda og UNESCO. Í húsinu verður einnig kennsla í erlendum tungumálum. Hlutverk stofnunarinnar er að vekja athygli á mikilvægi tungumála og gildi þýðinga og tungumálakunnáttu fyrir farsæl samskipti þjóða.