Ný stjórnarskrá grafi undan lýðræðinu

20.03.2017 - 22:19
Merkel Þýskalandskanslari hótar refsiaðgerðum vegna yfirlýsinga Tyrklandsforseta um nasista. Tyrknesk stjórnvöld róa að því öllum árum að auka völd forsetans í þjóðaratkvæðagreiðslu í apríl. Andstæðingar Erdogans segja að verði nýju lögin samþykkt grafi það undan grundvallarreglum lýðræðisins.

Deila Tyrkja og nokkurra Evrópuríkja vindur stöðugt upp á sig eftir að Tyrkjum var meinað að halda kosningafundi í Austurríki, Hollandi og Þýskalandi. Tyrkneskir ráðamenn hafa brugðist ókvæða við og líkt viðbrögðum ríkjanna við stjórnarhætti nasista. 

Varað hefur verið við vaxandi einræðistilburðum Erdogans. Hann hefur farið mikinn á fjölmennum kosningafundum víðs vegar um landið síðustu vikur og er víða lofaður af löndum sínum fyrir að standa uppi í hárinu á leiðtogum Evrópusambandsins. 

Samkvæmt skoðanakönnunum er mjög mjótt á munum. Andstæðingar Erdogans segja að nýju lögin veiki þingræðið og grafi undan grundvallarreglum lýðræðisins.