Ný lög gagnist ungum og tekjulágum

04.07.2017 - 10:26
Lög um skattfrjálsan sparnað fyrstu kaupenda tóku gildi fyrsta júlí. Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði telur að lögin eigi eftir að aðstoða fólk við að komast inn á fasteignamarkaðinn.

„Ég held að það sé helst þeir sem eru að reyna að komast inn á fasteignamarkaðinn og það er eins og við vitum mikið til ungt fólk, tekjulágir og þeir sem eru búnir að vera lengi á leigumarkaði og eru að gefast upp á því,“ sagði Una í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Margir falli þarna undir. „Þetta er mjög stór hópur og það er líka eitthvað sem þarf að laga. Það er ekki nóg að auðvleda fólki að komast inn á fasteignamarkað heldur þarf líka að vera til öruggur leigumarkaður. Það þarf líka að finna fyrirhuguð úrræði af hálfu hins opinbera hvað það varðar, að þá reyna að auka fjárframlög inn í kerfi stofnframlaga til uppbyggingar á leiguheimilum. Það er kerfi sem er komið af stað þótt við séum ekki enn farin að sjá þær íbúðir en það á að vera ódýrt leiguhúsnæði fyrir fólk undir vissum tekju- og eignamörkum, þar sem það getur bara búið í öruggu leiguhúsnæði.“

Una og tveir aðrir sérfræðingar Íbúðalánasjóðs ætla að fjalla um húsnæðismarkaðinn á opnum kynningarfundi hjá stofnuninni í hádeginu í dag. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi