Notaði debetkort sjúklings í Kringlunni

13.03.2017 - 10:57
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már  -  RÚV
Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi fyrir helgi konu í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að svíkja tæpar 300 þúsund krónur af sjúklingi á Landspítalanum en konan starfaði þar við umönnun hans. Vegna dráttar á meðferð málsins og þar sem konan hafði ekki sakaferil ákvað dómurinn að hafa refsinguna skilorðsbundna.

Fram kemur í ákæru að konan hafi stolið debetkorti af sjúklingi á Landspítalanum sem hún var að annast. Hún hafi síðan notað kortið í hraðbönkum á Landspítalanum og í Kringlunni.  

Konan játaði sök og dómurinn segir að þótt brot hennar varði ekki háa fjárhæð verði það að teljast ámælisvert þegar litið sé til aðstæðna.  

Dómurinn segir enn fremur að ekki verði annað séð en að rannsókn hafi lokið í nóvember 2015 en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki sent málið til kollega síns fyrir norðan fyrr en í febrúar á þessu ári.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV