Norðurlöndin saman gegn matarsóun

29.06.2017 - 14:17
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: starr — flickr.com
Meira en 3,5 milljón tonn af mat er hent á Norðurlöndum árlega. Sameinuðu þjóðirnar stefna að því að draga úr matarsóun um 50 prósent fyrir árið 2030. Norræna ráðherranefndin samþykkti á fundi sínum í gær að stefna í sameiningu að sama markmiði.

Í yfirlýsingu nefndarinnar að loknum fundi í Ålesund í gær er vísað til tilmæla sem eru afrakstur fjögurra ára samstarfs innan norræns verkefnis um matarsóun. Sven-Erik Bucht, landsbyggðarráðherra Svía, segir Norðurlöndin geta vísað veginn til þess að í sameiningu takist að ná markmiðum um að draga úr matarsóun. „Niðurstöður verkefnisins um matarsóun sýna raunverulegt norrænt notagildi og þau pólitísku tilmæli sem verkefnið hefur getið af sér gefa okkur hugmyndir að sviðum til að leggja áherslu á í framtíðinni,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Norræna ráðherranefndin
Norræna ráðherranefndin. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er fulltrúi Íslands.

Lögð er áhersla á frumframleiðslu, merkingar á geymsluþoli og breytt fyrirkomulag á dreifingu matvæla í norræna verkefninu. Þau tilmæli voru kynnt á fundinum í gær að koma á fót norrænu samstarfsneti um matarsóun og skilvirka nýtingu auðlinda til að greiða fyrir miðlun góðra starfshátta og stuðla að nýjum sameiginlegum átaksverkefnum. Þá var ákveðið að eiga í samstarfi um að samræma vinnu gegn matarsóun við stefnu landanna varðandi markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030.

Reglur um dreifingu matvæla verða samræmdar á Norðurlöndum til að sporna gegn matarsóun og ryðja hindrunum úr vegi sameiginlegs norræns matarmarkaðar.