Norður-Kórea nú talin búa yfir kjarnaoddum

08.08.2017 - 18:17
epa05908578 North Korean leader Kim Jong-un waves from a balcony during a parade for the 'Day of the Sun' festival on Kim Il-Sung Square in Pyongyang, North Korea, 15 April 2017. North Koreans celebrate the 'Day of the Sun' festival
 Mynd: EPA
Bandaríkjastjórn telur að Norður-Kóreumönnum hafi tekist að smíða lítinn kjarnaodd sem hægt sé að koma fyrir í flugskeytum. Yfirvöld í Norður-Kóreu hafi þannig stigið mikilvægt skref í átt að því að verða fullbúið kjarnorkuveldi. Þetta hefur bandaríska stórblaðið Washington Post eftir heimildum innan bandarísku leyniþjónustunnar.

Blaðið vitnar til samantektar leyniþjónustu hersins, sem er dagsett 28. júlí, þar sem segir að bandarískar leyniþjónustustofnanir telji að Norður-Kórea hafi nú framleitt kjarnaodd sem langdræg flugskeyti þarlendra yfirvalda geti borið. Ekki er vitað hvort norður-kóresk stjórnvöld hafa prófað þessi nýju vopn, en þau fullyrtu í fyrra að það hefðu þau gert.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti um helgina að beita Norður-Kóreu hörðustu efnahagsþvingunum sem landið hefur verið beitt. Þróun kjarnorkuvopna í alræðisríkinu gengur hraðar en margir sérfræðingar höfðu búist við. Meira en áratugur er síðan Norður-Kóreumenn sprengdu fyrstu kjarnorkusprengjuna, en talið var að mörg ár gæti tekið að þróa kjarnaodda sem hægt væri að skjóta með langdrægum flugskeytum á fjarlæg skotmörk. Nú virðist Norður-Kórea hins vegar búa yfir slíkri tækni.

Niðurstöður leyniþjónustunnar eru taldar líklegar til að auka áhyggjur manna af þeirri hernaðarvá sem kann að stafa af Norður-Kóreu. Sú hætta virðist aukast miklu hraðar en margir sérfræðingar höfðu spáð, segir í frétt Washington Post. Í síðasta mánuði bárust fréttir af því að bandarísk yfirvöld teldu yfirvöldum í Pjongjang ganga mun hraðar en spáð hafði verið að smíða flugskeyti sem hægt væri að skjóta á borgir á meginlandi Bandaríkjanna.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV