Nokkur atriði sem benda á Thomas

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Þrjú atriði sem komu fram í dag við aðalmeðferð vegna morðsins á Birnu Brjánsdóttur beina grunsemdum að Thomasi Møller Olsen. Blóð úr Birnu fannst á úlpu hans, erfðaefni hans var á skóreimum hennar og fingrafar Thomasar fannst á ökuskírteini Birnu.

Niðurstöður margvíslegra rannsókna vegna morðsins á Birnu Brjánsdóttur voru í forgrunni á öðrum degi réttarhaldanna yfir Thomasi Møller Olsen. Þar komu fram nokkrir þættir sem beina grunsemdum að honum. Fram kom í skýrslugjöf vitna að erfðaefni úr Birnu og Thomasi var að finna í reimum úr skóm hennar sem fundust við Óseyrarbraut. Þá var blóð úr Birnu á úlpu Thomasar og fingrafar hans fannst á ökuskírteini hennar. 

Töluverðir áverkar voru á líki Birnu, sagði þýskur sérfræðilæknir í réttarmeinafræði. Hann taldi að henni hefðu verið veitt hnefahögg með vinstri hendi en hugsanlega hefði báðum höndum verið beitt. Ómögulegt væri að svara því hvort árásarmaðurinn væri rétthentur eða örvhentur. Thomas hefur reynt að beina sök að Nikolaj Olsen, ferðafélaga sínum nóttina sem Birna hvarf, sem er örvhentur. Læknir sem rannsakaði þá Thomas og Nikolaj eftir handtöku sagði að þá hefðu fjögurra til sex daga gömul klórför verið á bringu Thomasar. Það passar við tímasetninguna þegar ráðist var á Birnu og henni banað. Áverkar á Nikolaj þóttu ekki gefa tilefni til að ætla að þeir tengdust árásinni á Birnu. Annar læknir, sem verjandi Thomasar fékk til að meta líkamsburði sakbornings, sagði að Thomas hefði verið meiddur á öxl. Það hefði þó ekki takmarkað getu hans til að veita öðrum áverka.

Norskir fingrafarasérfræðingar komust að þeirri niðurstöðu að eina nothæfa fingrafarið sem fannst á ökuskírteini Birnu Brjánsdóttur væri Thomasar Möllers Olsens. 

Ekkert er vitað um ferðir Thomasar milli klukkan sjö og ellefu laugardaginn eftir að Birna hvarf. Lögregla telur að þá hafi hann farið Krýsuvíkurleið til að losa sig við lík Birnu. Fram kom í morgun að síðasta mæling á ferðum síma Thomasar gefi til kynna að hann hafi verið á Reykjanesbraut klukkan rétt rúmlega sjö.