Nígería: Efnahagskreppa, hryðjuverk og skærur

11.01.2017 - 19:12
Mynd með færslu
Eldur logar í olíuleiðslu skammt frá Lagos í Nígeríu.  Mynd: EPA
Nígería er fjölmennasta og eitt mikilvægasta ríki Afríku en á í verulegum þrengingum. Í norðurhlutanum hafa milljónir hrakist á flótta vegna þurrka, uppskerubrests og hernaðarátaka. Íbúar í suðausturhluta landsins krefjast sjálfstæðs ríkis. Við hina olíuauðugu óshólma Níger-fljóts hafa skæruliðahópar unnið mikil skemmdarverk á innviðum olíuiðaðarins - langstærstu tekjulynd ríkisins.

Nígería er langfjölmennasta ríki Afríku. Þar búa hátt í hundrað og níutíu milljónir manna. Landið er auðugt af olíu og leiðandi afl á svæðinu. Undanfarin misseri hefur það þó sjaldan ratað í fréttir nema af einni ástæðu: Skæruhernaði Boko Haram, hryðjuverkasamtaka Íslamista sem herjað hafa í norðausturhluta Nígeríu undanfarin sjö ár. Talið er að vargöldin sem samtökin hafa staðið fyrir hafi kostað um 20.000 manns lífið.

Boko Haram er þó langt í frá eina ógnin sem stafar að Nígeríu þessi dægrin. Líklega er ógnin af Boko Haram heldur ekki sú alvarlegasta, eins og Wolf Kinzel, sérfræðingur hjá Stiftung Wissenschaft und Politik, bendir á í nýlegri umfjöllun sinni um Nígeríu.

Stiftung Wissenschaft und Politik er rannsóknarstofnun sem fjallar um alþjóða- og öryggismál. Starfsemi stofnunarinnar, sem er sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu, er að stórum hluta fjármögnuð af þýska Sambandsþinginu.

Kinzel segir að Nígería standi nú frammi fyrir margs konar vanda. Hætta er á efnahagskreppu vegna lágs olíuverðs og skemmdarverka á olíuvinnslumannvirkjum. Í norðurhlutanum vofir hungursneyð yfir vegna loftslagsbreytinga og vatnsskorts. Íbúar í suðausturhluta landsins krefjast sjálfstæðis.

Mynd með færslu
Abubakar Shekau, leiðtogi Boko Haram, sem svarið hefur hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu hollustu sína.  Mynd: Boko Haram  -  Youtube

Upplausn vegna Boko Haram, en líka vegna loftslagsbreytinga

Verst er ástandið líklega í norðurhlutanum, þar sem vígamenn Boko Haram hafa herjað á íbúa. Samtökin hafa valdið mikilli upplausn í Norður-Nígeríu, en um leið skýrist uppgangur þeirra að verulegu leyti af þeirri upplausn sem var fyrir.

Nyrst í Nígeríu - á landamærum Nígeríu, Nígers, Chads og Kamerúns, var áður gríðarstórt stöðuvatn - Chad-vatn. Það hefur minnkað mjög síðustu áratugi. Árið 1963 var það um 25 þúsund ferkílómetrar að stærð - um fjórðungur af flatarmáli Íslands. Vatnið er nú aðeins um 5% af fyrri stærð. Þetta er rakið til loftslagsbreytinga og ofnýtingar á vatninu í áveitur. Skortur á vatni og breytt umhverfi hefur kippt fótunum undan samfélögum bænda og fiskveiðimanna á svæðinu og leitt til matvælaskorts og upplausnar.Auk þeirra tveggja og hálfrar milljóna sem eru á vergangi á svæðinu, búa um 60 milljónir íbúa þar við sára fátækt. Óttast að á næsta ári þurfi um 14 milljónir manna á svæðinu á matvæla- og neyðaraðstoð að halda. Kinzel segir það til marks um ástandið að lömunarveiki - pólíó - sem löngu hafi verið búið að útrýma þarna, sé nú farin að láta á sér kræla að nýju.

Mynd með færslu
Muhammadu Buhari (v), forseti Nígeríu, í opinberri heimsókn í grannríkinu Níger, í júní 2015.  Mynd: EPA

Núverandi forseti Nígeríu, Muhammadu Buhari, tók við embætti fyrir tæpum tveimur árum. Nokkrum mánuðum seinna, í desember fyrir rúmu ári, tilkynnti hann að í raun væri búið að ráða niðurlögum Boko Haram. Tæpu ári síðar - í október í fyrra - ítrekaði hershöfðingi í nígeríska hernuml að nú væri loks búið að ráða niðurlögum samtakanna. En það mun orðum aukið. Samtökin eru nú klofin og er annar armur þeirra í nánum tengslum við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki. Wolf Kinzel hjá Stiftung Wissenschaft und Forschung segir að staðan á landamærum Nígeríu, Chad og Kamerún hafi versnað. Vígasveitir Boko Haram séu á svæðinu sem fyrr, auk þess sem hætt sé við að herskáir íslamistar víðar að sláist í lið með þeim. Almennir borgarar hafi svo myndað vopnaðar sveitir á eigin vegum, til að verjast ágangi vígasveitanna. Ekki verði einfalt mál fyrir stjórnarherinn að sannfæra þá um að leggja niður vopn og treysta á vernd yfirvalda og lögreglu. 

Bændur og hirðingjar deila um minnkandi graslendi 

Um miðbik Nígeríu er einnig mikið um vopnuð átök - milli bænda, sem aðallega eru kristnir, og hirðingja, sem flestir eru múslímar. Talið er að á síðustu fimmtán árum hafi allt að 60 þúsund fallið í vígaferlum þessara hópa. Með aukinni fólksfjölgun og þurrkum vegna loftslagsbreytinga, er hætt við baráttan um brauðið harðni enn og átökin þar með. Stjórnvöld í Nígeríu hafa fram til þessa lítið gert til að tryggja frið á svæðinu og framfylgja lögum.

Átök um arð af olíu í suðurhluta landsins

Stjórnarherinn hefur hins vegar látið til sín taka í suðurhluta landsins, með hernaðaraðgerðum til verndar olíuvinnslu. Enda fær nígeríska ríkið um 70% af tekjum sínum af olíuvinnslu. Erlend fyrirtæki á borð við Shell, Chevron og ExxonMobil hafa hagnast á olíuvinnslu á svæðinu en heimamenn segjst sviknir um sína hlutdeild. Sérstaklega þar sem mengunarslys hafa svipt fiskveiðisamfélög lifibrauði sínu. Undanfarin misseri hafa samtök á svæðinu staðið að skemmdarverkum sem leitt hafa til þess að olíuvinnsla hefur minnkað um helming. 

Íbúar í suðausturhlutanum - Biafra - krefjast sjálfstæðis

Óshólmar Níger eru vestast í því sem um hríð var sjálfstæða ríkið Biafra. Biafra-ríki lýsti yfir sjálfstæði frá Nígeríu árið 1967, en eftir ósigur sveita sjálfstæðissinna fyrir nígeríska hernum, varð Biafra aftur hluti af Nígeríu, þremur árum síðar. Undanfarið hefur að nýju farið að bera á kröfum um sjálfstæði og hefur lögregla ítrekað beitt táragasi og öðrum vopnum gegn aðskilnaðarsinnum á sævæðinu, til dæmis í Port Harcourt í nóvember 2015, eftir að leiðtogi aðskilnaðarsinna, Nnamdi Kanu, var handtekinn. Þá hafa öryggissveitir - her og lögregla - ítrekað ráðist í aðgerðir á svæðinu, til að reyna að bæla niður sjálfstæðishreyfinguna.

Það er því víða ólga og ófriður í Nígeríu, auk þess sem lægra olíuverð og minnkandi framleiðsla geta haft hrikaleg áhrif á efnahag landsins. Verðbólga nálgast nú 20% og atvinnuleysi er gríðarlegt.