Neyðarástandi vegna Zika aflétt í Brasilíu

12.05.2017 - 03:46
epa05151894 A picture made available on 09 February 2016 shows Ana Beatriz, a baby girl with microcephaly, celebrates her fourth months in Lagoa do Carro, Pernambuco, Brazil., on 08 February 2016. The Zika virus has not yet officially been proven to have
 Mynd: EPA  -  EFE
Brasilísk heilbrigðisyfirvöld hafa aflýst neyðarástandi vegna Zika veirunnar. Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu. Tilfellum sjúkdómsins hefur fækkað hratt undanfarið, eða um 95% á fyrstu fjórum mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra.

Zika veiran dreifðist víða í fyrra og lýsti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, yfir alþjóðlegu neyðarástandi. Því var aflétt í nóvember. Sjúkdómurinn lagðist verst á þungaðar konur. Hann gat valdið því að börn þeirra fæddust með óeðlilega smá höfuð. Fæðingargallar í yfir 30 ríkjum víða um heim voru taldir tengjast Zika veirunni.

Neyðarástandi var lýst yfir í Brasilíu í nóvember 2015. Veiran dreifðist helst með moskítóflugu, og var farið í herferð gegn henni. Veiran hafði talsverð áhrif á Ólympíuleikana í Ríó í fyrra, þar sem nokkrir íþróttamenn neituðu að taka þátt af ótta við að smitast.

Frá ársbyrjun og út apríl hafa 7.911 Zika tilfelli greinst í Brasilíu. Á sama tíma í fyrra voru þau yfir 170 þúsund. Átta létust af völdum sjúkdómsins í fyrra, en enginn í ár að sögn yfirvalda