Neita að viðurkenna sigur Kenyatta

12.08.2017 - 17:21
Erlent · Afríka · Kenía · Stjórnmál
Mynd með færslu
Uhuru Kenyatta, til vinstri, og Raila Odinga. Hann ætlar ekki að játa sig sigraðan.  Mynd: EPA
Bandalag stjórnarandstöðuflokka í Kenía neitar að viðurkenna að frambjóðandi þeirra í forsetakosningunum í vikunni hafi lotið í lægra haldi fyrir sitjandi forseta. Stjórnarandstæðingar segjast ætla að berjast fyrir því að niðurstöðunni verði snúið við. Mannskæðar óeirðir hafa verið á nokkrum stöðum frá því að úrslitin voru kynnt.

Johnson Muthama, talsmaður stjórnarandstöðuflokkanna NASA, endurtók í dag ásakanir um að stuðningsmenn Uhuru Kenyatta forseta hefðu átt við gögn úr tölvum kjörstjórnarinnar og þannig tryggt sínum frambjóðanda sigur. Hann sagði að áfram yrði barist fyrir því að leiða sannleikann í ljós og snúa úrslitunum þeirra manni, Raila Odinga, í hag.

Muthama sakaði stjórnvöld um að hafa sigað lögreglunni á mótmælendur til að reyna að berja bandalag stjórnarandstöðuflokkanna til hlýðni. Hann fullyrti að lögreglan hefði orðið hundrað mótmælendum að bana. Sú fullyrðing hefur ekki fengist staðfest.

Lögreglan í Naíróbí greindi frá því í dag að níu hefðu látið lífið í óeirðum frá því að Uhuru Kenyatta var lýstur sigurvegari í gærkvöld. Flestir hefðu þeir fallið í nokkrum fátækrahverfum í borginni, þar sem stuðningsmenn Raila Odinga væru fjölmennir.

Að sögn kjörstjórnarinnar í Kenía hlaut Uhuru Kenyatta um það bil 54 prósent greiddra atkvæða í kosningunum á þriðjudag. Raila Odinga um 44 prósent. Erlendir eftirlitsmenn greindu frá því eftir kosningarnar að þær hefðu að mestu leyti farið vel fram.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV