Nauðsynlegt að leika stórt undir berum himni

María Kristjánsdóttir, leikhúsgagnrýnandi Viðsjár, fór með ungum fylgdarsveini að sjá Ljóta andarungann í Elliðaárdalnum í uppfærslu Leikhópsins Lottu.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Það var sól og sunnanvindur þegar ég og einn sjö ára lögðum leið okkar í Elliðaárdalinn, í Lottulund. En þar á hverjum miðvikudegi klukkan sex sýnir leikhópurinn Lotta, í allt sumar, verk sprottið úr ævintýraheimi H. C. Andersen. Að þessu sinni ævintýrið um ljóta andarungann. Mamma önd og pabbi önd afgreiddu miða í litlum skúr við innganginn. Og þar var líka hægt að kaupa sleikjupinna og fá lánuð teppi til að breiða á grasið og láta fara vel um sig. Það var ákaflega margt um manninn í lundinum: Mömmur og pabbar, afar og ömmur og börn á öllum aldri. Á meðan þau komu sér fyrir þá sagði litli kiðlingurinn, leikinn af Andreu Ösp Karlsdóttur, brandara uppi á palli fyrir framan furðuhús með flötu þaki. Ofan á því trónuðu þrjú egg, í miðjunni eitt  stærst. Af þakinu liggja stigar sinn hvoru megin niðuð á neðri pallinn.

Eiginlega teygir leikmyndin sig til hægri út eftir túninu með grindverki, framan við það rafmagnsorgel sem  Helga Ragnarsdóttir  leikur á undir allri sýningunni nema þegar hún þarf að bregða sér lipurlega í hlutverk einhverrar ævintýrapersónunnar. En hún ásamt Rósu Ásgeirsdóttir er einnig höfundur fjörugra laga sem eru gegnumgangandi. Stráksi hlustaði á brandarana og tók inn svæðið, kvað svo uppúr með að brandararnir væru ekki fyndnir og sneri sér að því reyna að ná pappírnum utan af sleikjóinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Leikhópurinn Lotta  -  Youtube

En svo hófst frásögnin af ljóta andarunganum. Mamma önd, leikin af Þórunni Lárusdóttur og Andapabbi leikinn af Sigsteini Sigurbergssyni drógu athygli stráksa frá sleikjóinu og hann reis á fætur til að sjá betur og fylgdist af athygli með leiknum eftir það, en stökk aldrei bros á vör þó hann sé óvenju hláturmildur og klappaði hvorki með né söng þegar áhorfendur voru dregnir með inn í leikinn.

Anna Bergljót Thorarensen leikstjórinn er einnig höfundur söngva og leiks og fátt er þar eftir af hinni klassísku sögu nema grunnþemað og boðskapurinn.  Þetta er leikur fyrir og um nútíma íslenska andafjölskyldu sagður á nútímamáli krydduðu með sígildum málsháttum og orðasamböndum, oft endurteknum, sem gefa foreldrum tilefni til að útskýra þau og kenna börnunum. Oft þótti mér þó höfundur gangast um of upp í því að skemmta hinum fullorðnu, jafnvel með tvíræðum hlutum, sem pabbarnir höfðu augsýnilega ákaflega gaman af, en hafa, býst ég við, farið ofan garð og neðan hjá börnunum. Áhugaverð er hins vegar fléttan.  En Anna Bergljót notar stutt dæmi úr öðrum ævintýrum H. C. Andersen (sem leikhópurinn hefur flutt áður) til að styrkja sjálfsmynd ljóta andarungans þegar hann örvæntir hvað mest. Þar mæta Öskubuska, Kiðlingarnir sjö, Prinsessan á bauninni og Hérinn og skjaldbakan og miðla honum af reynslu sinni. 

Það reynir mikið á búningameistarann Kristinu A. Berman og henni tekst vel, oft með sára einföldum hlutum, að gera ævintýrapersónurnar ljóslifandi; fjölga þeim með notkun handbrúða sem Andrea Ösp Karlsdóttir á heiðurinn af; og vísa í nútímann til dæmis í kapphlaupi hérans og skjaldbökunnar sem allt eins gætu einhverntímann hafa sést á göngustígunum neðar í dalnum. Það reynir líka á leikarana sex sem þurfa að bregða sér í tuttugu hlutverk. Sumir þaulvanir menntaðir leikarar og söngvarar gera það af list eins og Þórunn Lárusdóttir, aðrir, sem ég hef ekki séð áður á leiksviði, sprottnir úr tónlistarheiminum og víðar, eru hins vegar oft nokkuð ýktir í leik og einkum þó raddbeitingu. En leikgleðin er fyrir hendi, allt gengur smurt og reyndar er á leiksviðum undir berum himni  auðvitað nauðsynlegt að ýkja og  leika stórt.

Mynd með færslu
 Mynd: Leikhópurinn Lotta  -  Youtube

Þegar upp var staðið sagðist áðurnefndur stráksi, í óspurðum fréttum, vita alveg um hvað sýningin væri. Hún væri um einelti og það mætti aldrei skilja neinn útundan og allir ættu að vera góðir hver við annan, og alls ekki vondir við stóra stráka.  Svo skiluðum við teppunum við skúrinn  þar sem andamamma og andapabbi voru aftur búin að koma sér fyrir nú til að selja hljómdiska með lögunum. Þá sagði hann, „ég þarf að tala við leikarana.“ Mér brá í brún, vissi ekki hvort hann ætlaði að segja þeim að honum hefðu fundist brandararnir vondir eða vildi að ég keypti disk fyrir hann. En vakti þó athygli andamömmu á að hér væri gutti í hópnum sem vildi ná sambandi. Hann horfði á hana grafalvarlegur á svipinn og sagði hátt og skýrt: „Þetta var flott sýning.“

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi