N-grænlenski grálúðustofnin að hruni kominn

12.08.2017 - 07:28
Mynd með færslu
Grænlensk grálúða  Mynd: KNR  -  Kalaallit Nunaata Radioa
Ofveiði stefnir grálúðustofninum við Norður-Grænland í voða og brýnt er að grípa til aðgerða nú þegar. Þetta segir Henrik Sandgreen, formaður landsambands sjó- og veiðimanna á Grænlandi, KNAPK. Afli hefur dregist mikið saman á hefðbundnum grálúðumiðum í Diskóflóa, Uummannaq og Upernavik. Fyrstu sex mánuði ársins veiddust 8.448 tonn af grálúðu á þessum slóðum,.sem er um 5.000 tonnum minna en á sama tímabili í fyrra.

Mest eru umskiptin í Diskóflóa. Þar veiddist 391 tonn í maí í ár, en 1446 tonn í sama mánuði fyrra, og í júní í ár veiddust þar 632 tonn af grálúðu á móti 1.616 tonnum í júní 2016.

Sandgreen er ekki í vafa um að ofveiði sé helsta orsök þeirra gríðarlegu breytinga til hins verra, sem orðið hafa á grálúðumiðum þar nyrðra upp á síðkastið. Fiskifræðingar hafi varað við ofveiði á þessum slóðum árum saman en stjórnmálamenn hunsað ráðgjöf þeirra æ ofan í æ og geri það enn, segir Sandgreen. Í ár hafi ráðgjöfin hljóða upp á 19.200 tonna kvóta á þessum miðum en sjávarútvegsráðherra hafi úthlutað 28.200 tonnum.

Við þetta bætist að á stórum svæðum megi veiða grálúðu utan kvóta. Sú tilhögun var tekin upp 2014 og hefur gagnrýni á þær veiðar farið mjög vaxandi. Í febrúar var ákveðið að draga úr veiðum utan kvóta og jafnvel hætta þeim alveg. Sjávarútvegsráðherra Grænlands, Karl-Kristian Kruse, vísar hins vegar allri gagnrýni á utankvótaveiðarnar á bug. Frá þessu er greint í blaðinu Sermitsiaq.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV