Myndir af heimilum fólks enn á vef Já.is

17.07.2017 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd: ja.is  -  Skjáskot
Myndir af heimilum fólks birtast enn á vefnum Já.is, þrátt fyrir að Persónuvernd telji það brjóta í bága við lög. Fyrirtækið bíður niðurstöðu Persónuverndar í málinu.

Fyrir nær tveimur mánuðum tók stjórn Persónuverndar ákvörðun um að fyrirtækið Já, sem á og rekur vefsíðuna www.ja.is, megi ekki birta myndir af heimilum fólks, þegar viðkomandi er flett upp á vefsíðunni. Það brjóti í bága við lög.

Persónuvernd barst ábending í fyrra um að myndir af heimilum birtist sjálfkrafa þegar nöfnum þeirra er flett upp á Já.is. Persónuvernd telur að fyrirtækið hefði átt að upplýsa þá sem eru skráðir á vefinn um þetta og fræða, áður en myndbirtingin átti sér stað. Þar sem það hafi ekki verið gert, sé myndbirtingin ekki í samræmi við lög.

Þótt nær tveir mánuðir séu frá ákvörðun Persónuverndar, sem tekin var 18. maí, birtast myndir af heimilum fólk enn á vef Já.is, þegar nafni þess er flett upp. Persónuvernd gaf fyrirtækinu frest til 19. júní til að senda skriflega lýsingu á hvernig tryggt verði að myndbirtingin fari ekki í bága við lög. Persónuvernd hefur borist þessi lýsing en ekki tekið afstöðu til hennar. Þórður Sveinsson, skrifstofustjóri lögfræðisviðs hjá Persónuvernd, segir að það verði gert eins skjótt og auðið er.

Margrét Gunnlaugsdóttir, sviðsstjóri vöru- og viðskiptaþróunar hjá Já, segir að fyrirtækið bíði nú eftir svari Persónuverndar. Stofnunin hafi ekki farið fram á að neinu verði breytt í millitíðinni. Og því bíði fyrirtækið niðurstöðu málsins. Margrét segir að fyrirtækið ætli að hlíta úrskurði Persónuverndar og hafa þetta í lagi. Hún bendir á að úrskurðurinn snúi aðeins að einni birtingarmynd ljósmynda á vefsíðunni ja.is – ekki sé nægilega upplýst samþykki fyrir því þegar myndir birtast af heimilum einstaklinga.

Uppfæra myndirnar frá 2013

Bíll á vegum fyrirtækisins Já er nú á ferð um landið. Verið er að taka myndir af öllu landinu og verða myndir á vef fyrirtækisins, og svokallaður kortagrunnur, uppfærð í heild. Myndirnar sem nú eru á Já.is voru að mestu leyti teknar árið 2013. Gagnagrunnurinn hefur verið uppfærður að hluta til síðan þá en nú stendur til að uppfæra hann í heild. Enda bendir Margrét á að miklar breytingar hafi orðið á þessum fjórum árum, og nefnir sérstaklega uppbyggingu í miðborg Reykjavíkur.