Munurinn eykst á Nýja Sjálandi

07.09.2017 - 07:32
FILE - In this Aug. 16, 2017 file photo, New Zealand Labour Party leader Jacinda Ardern talks with school children during a visit to Addington School in Christchurch, New Zealand. Three weeks before a general election on Sept. 23, the dramatic rise of New
Jacinda Ardern, leiðtogi Verkamannaflokksins á Nýja Sjálandi.  Mynd: ASSOCIATED PRESS  -  AP
Forskot Verkamannaflokksins á Nýja Sjálandi hefur aukist samkvæmt nýrri könnun sem birt var í morgun. Fjórum prósentustigum munar nú á Verkamannaflokknum og Þjóðarflokknum, sem haldið hefur um stjórnartaumana á Nýja Sjálandi undanfarinn áratug.  

Verkamannaflokkurinn hefur bætt við sig miklu fylgi síðan Jacinda Ardern tók þar við forystu í síðasta mánuði. Fylgi flokksins hefur þó ekki aukist frá samskonar könnun í síðustu viku, en þá var það 43 prósent. Fylgi Þjóðarflokksins hefur hins vegar minnkað um tvö prósentustig í 39 prósent.

Flokkurinn Nýja Sjáland fyrst bætir við sig fylgi og er nú með níu prósent samkvæmt könnuninni og gæti ráðið úrslitum við stjórnarmyndun að kosningum loknum að sögn fréttastofunnar Reuters. Flokkur Græningja er með fimm prósenta fylgi. Kosningar verða á Nýja Sjálandi 23. þessa mánaðar. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV