Moody's: Afnám hafta hefur jákvæð áhrif

17.03.2017 - 17:00
epa03596305 (FILE) A file picture dated 13 July 2011 shows the Moody's logo outside the offices of Moody's Corporation in New York, New York, USA. The ratings agency Moody's on 22 February 2013 lowered Britain's top AAA credit rating
 Mynd: EPA  -  EPA FILE
Matsfyrirtækið Moody‘s telur að afnám fjármagnshafta hér á landi hafi jákvæð áhrif á lánshæfi ríkissjóðs og fjármálageirans. Þetta kemur fram í frétt sem Moody's birti í dag og greint er frá á heimasíðum Seðlabankans og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Moody's minnir íslensk stjórnvöld hins vegar á að vera á varðbergi varðandi þenslu í ferðaþjónustu hér á landi.

Í fréttinni segir meðal annars að með því að afnema höftin að mestu hafi íslensk stjörnvöld sent þau skilaboð að efnahagskerfið sé komið í eðlilegt horf, rúmlega átta árum eftir að 90% bankakerfisins hrundi. Afnám haftanna hafi verið jákvæð aðgerð þegar kemur að lánshæfi ríkissjóðs og fjármálageirans því afnámið leiði til  meiri beinnar fjárfestingar erlendis, svo sem fjárfestingar sem beinist að samkeppnishæfum og grænum orkulindum. Þótt höftin hafi ekki náð til nýrra fjárfestinga sé líklegt að útgjöld vegna umsýslu­kostnaðar af völdum haftanna hafi fælt fyrirtæki frá. 

Afnám hafta muni einnig minnka svokallaða gróðurhúsaáhættu þar sem heimili, lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar neyðast til að fjárfesta innanlands. Höftin hafi þrýst eignaverði upp og aukið áhættu fjárfesta vegna samþjöppunar.

Matsfyrirtækið segist þó vænta þess að íslensk stjórnvöld séu tilbúin til að grípa til aðgerða, ef nauðsyn ber til, til þess að takmarka áhættu vegna þenslu í ferðaþjónustu. 

Frétt Moody's má lesa í lauslegri þýðingu hér.