Möguleiki á fiskveiðum í Norður-Íshafi

15.03.2017 - 19:57
Norður-Íshafið kann að verða góður kostur til fiskveiða í framtíðinni. Níu ríki og Evrópusambandið freista þess nú í Reykjavík, að ná samningum um nýtingu og rannsóknir á fiskistofnum sem kunna að leita þangað.

Loftslagsbreytingarnar hafa gríðarleg áhrif á norðurhveli. Íshellan er að bráðna og þá opnast hafsvæðið skipum. Þetta er kveikjan að fjölþjóðlegum viðræðum en fimmta lota þeirra hófst í Þjóðmenningarhúsinu í morgun.

„Níu ríki og Evrópusambandið funda hér í Reykjavík í vikunni. Við vonumst til að ljúka við bindandi alþjóðasamkomulag til að fyrirbyggja eftirlitslausar fiskveiðar í atvinnuskyni á hafsvæðum utan lögsögu ríkja í miðju Norður-Íshafi,“ segir David Balton, stjórnandi viðræðnanna. 

Löndin níu sem sitja við samningsborðið eru Ísland, Bandaríkin, Danmörk, Noregur, Kanada, Rússland, Japan, Kína og Suður-Kórea. „Svæðið sem við einblínum á er utan lögsögu allra ríkjanna. Þetta eru ríki af svæðinu hér í kring en einnig ríki eins og Suður-Kórea og Kína sem eiga stóran fiskveiðiflota og gætu haft áhuga á að veiða á þessu svæði í framtíðinni,“ segir Balton. 

„Þarna eru stór svæði að opnast, ís að hverfa og hugsanlega töluverðir fiskveiðimöguleikar í framtíðinni,“ segir Jóhann Sigurjónsson, formaður íslensku sendinefndarinnar. 

„Það er samstaða um að nálgast þetta með þessum hætti, þ.e.a.s. segja með sjálfbærni og að byggja hugsanlegar veiðar á vísindalegri þekkingu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

1993 hófu Íslendingar þorskveiðar í Smugunni, hafsvæði í Barentshafi. Þetta olli deilum við Norðmenn sem leystust ekki fyrr en með samningum 1999. „Noregur og Ísland hafa ekki alltaf verið sammála um öll sjávarútvegsmál. Við erum það heldur ekki í dag, höfum ekki verið það í sögulegu tilliti og eigum örugglega ekki eftir að vera það í framtíðinni en það sem við vitum er að við getum fundið lausnir og Smugusamningarnir eru auðvitað dæmi um það. Það er enginn ágreiningur milli Noregs og Íslands í þessum viðræðum,“ segir Kjell-Kristian Egge, formaður norsku sendinefndarinnar.