Mjög hvasst á fjallvegum á Vestfjörðum

10.05.2017 - 10:09
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Leiðindaveður er nú á Vestfjörðum með hvassviðri og éljagangi, slyddu eða snjókomu. Ófært er um Hrafnseyrar- Dynjandisheiðar. Stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og snjóþekja.

Mjög blint er á fjallvegum, einkum á Gemlufallsheiði, Steingrímsfjarðarheiði, á Klettshálsi og Þröskuldum. Ekki er búist við því að það lægi fyrr en í nótt en það dregur úr ofankomu seinni partinn. Víða er vindhraði yfir 20 metrum á sekúndu á fjallvegum með sterkum vindhviðum, samkvæmt veðurmælingum Vegagerðarinnar allt að 50 metrum á sekúndu á Gemlufallsheiði, milli Dýrafjarðar og Önundafjarðar.

Á láglendi er öllu skaplegra veður. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum hefur veðrið ekki valdið vandræðum en björgunarsveitarfólk aðstoðaði íbúa í gærkvöldi við að festa það sem var lauslegt. 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV