Misjöfn ávöxtun séreignarsjóða

03.05.2017 - 21:31
Rúmur helmingur Íslendinga á vinnumarkaði greiðir í séreignarsjóði til að bæta lífskjörin á efri árum. Ávöxtun þeirra hefur hins vegar verið mjög mismunandi og getur munað töluvert miklu á ráðstöfunartekjum, ef miðað er við meðalávöxtun frá stofnun. Sumir sjóðir eru enn að vinna upp mikið tap frá hrunárinu 2008.

Meðalávöxtun frá því að séreignarsjóðir voru stofnaðir upp úr aldamótum er alveg frá 0,5% upp í tæp 9%, eftir ávöxtunarleiðum og sjóðum. Það getur þýtt margfaldan mun á ráðstöfunartekjum þegar kemur að því að taka lífeyrinn út.

„Ég hélt að þetta væri þannig að þessir sjóðir væru með mjög svipaða ávöxtun. Ef maður veltir þessu ekki fyrir sér og fer ekki að skoða þetta sjálfur, þá getur maður lent í því hlutskipti að lífeyrissparnaðurinn sem maður hefur er búinn að vera í mjög lítilli raunávöxtun í langan tíma, jafnvel í áratugi, eða þá að hann er búinn að vera í mjög hárri ávöxtun. 6-7-8, hátt í 9 prósent í mjög langan tíma. Þetta getur bara skilið á milli þess hvort að maður lepur dauðann úr skel sem gamalmenni eða hvort maður á pening til þess að vera með lambalæri og gefa afmælisgjafir og fara kannski einu sinni erlendis á ári.“

Þetta segir Hallgrímur Óskarsson, verkfræðingur, sem hefur tekið saman meðalraunávöxtun allra séreignasjóða hérlendis frá stofnun. Flestum var komið á fót skömmu eftir aldamót, svo tölurnar ná oftast yfir 10-15 ára tímabil.

Það er hins vegar ekkert sérstaklega auðvelt að bera sjóðina saman og töluverð vinna að finna allar ávöxtunartölur. Margir sjóðir fengu mikinn skell árið 2008 og eru enn að vinna hann upp. Þessir fóru verst út úr því ári:

Þeir 12 séreignarsjóðir sem töpuðu mestu árið 2008.
 Mynd: kastljós
Séreignarsjóðirnir sem verst fóru út úr hrunárinu 2008

Ef eingöngu er litið til langtímaávöxtunar – og á það skal bent að það er misjafnt hversu lengi þessir sjóðir hafa starfað (stofnár elstu leiðar eru innan sviga) – þá er þetta röðin. Besta ávöxtun efst, sú lakasta neðst:

 SJÓÐUR                                                                 ÁVÖXTUNAREINKUNN

 1. Stapi lífeyrissjóður (2002)                                              8,15
 2. Allianz - EUR ávöxtun (2003)                                         5,53
 3. Söfnunarsj. lífeyrisréttinda (2003)                                4,74
 4. Lífeyrissj. stm. sveitarfélaga (2004)                              4,43
 5. Sameinaði lífeyrissjóðurinn (2004)                              4,41
 6. Lífeyrissjóður stm. ríkisins (2002)                                4,04
 7. Kvika (MP banki) (2009)                                                 3,99
 8. Frjálsi lífeyrissjóðurinn (2005)                                      3,58
 9. Lífeyrissjóður verslunarmanna (2002)                        3,36
 10. Festa lífeyrissjóður (2006)                                             3,32
 11. Arion banki – Lífeyrisauki (2003)                                  3,22
 12. Gildi lífeyrissjóður (2005)                                               3,14
 13. Íslenski lífeyrissjóðurinn (2003)                                    2,87
 14. Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Ísl. (2000)                  2,69
 15. VÍB – FramtíðarAuður (2011)                                        2,64
 16. Stafir lífeyrissjóður (2006)                                             2,56
 17. Almenni lífeyrissjóðurinn (2003)                                  2,48
 18. Lífeyrissjóður Vestmannaeyja (2004)                          2,26
 19. Lífsverk lífeyrissjóður (2000)                                         2,20

Þetta eru þeir sjóðir sem taka við séreignarsparnaði til ávöxtunar. Bayern Líf er ekki á listanum því nokkru eftir að gjaldeyrishöftin voru innleidd, hætti sjóðurinn að taka við nýjum sjóðfélögum. Að auki sameinuðust Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir lífeyrissjóður í lok síðasta árs og heitir sá sjóður nú Birta.

Ávöxtunareinkunnin er byggð á hlutfalli af bestu leið, Áræðnu leiðinni hjá Stapa, sem hefur gefið að meðaltali 8,85% raunávöxtun frá 2002.  Allar þrjár séreignarleiðir Stapa skiluðu hagnaði hrunárið 2008, en eins og nefnt var að ofan lék það marga sjóði grátt og hefur mikil áhrif á útkomuna. Það getur tekið langan tíma að vinna upp einn mikinn skell. Tökum sem dæmi sjóð sem tapaði 35% árið 2008, eins og dæmi eru um. Þótt hann sé með 3,5% raunávöxtun á ári eftir það, tekur samt 13 ár að komast á núllið aftur.

Eftir hrun var lögum breytt svo landsmenn gátu tekið út viðbótarlífeyrissparnaðinn. Síðan hafa fleiri leiðir verið leiddar í lög, eins og að nýta hann til að safna fyrir útborgun í fyrstu íbúð eða til að greiða niður húsnæðislán.

Þorbjörn Guðmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða segir samtökin hafa ákveðið að vera jákvæð gagnvart þessu. 

„Það kannski að ungt fólk sem er að komast yfir að kaupa fasteign að það taki einhver fyrstu árin á vinnumarkaði og nýti það í það, það má kannski segja að það sé að byggja að einhverju leyti undir sína fjárhagslegu afkomu síðar. En ég held hins vegar að það sé ekki æskilegt að þú getir gert þetta mjög lengi. ...Við auðvitað leggjum áherslu á að menn hafi það alltaf í huga til hvers er lífeyrissjóðakerfið? Það er auðvitað fyrst og fremst til þess að safna fyrir eftirlaunum.“

Nú kann að vera að fólk telji ekki endilega muna mikið um eitt prósentustig til eða frá og flestar leiðirnar eru með 2-4% meðalraunávöxtun. En vegna þess að lífeyrissparnaður ávaxtast svo lengi, þá getur það skipt miklu máli. Skoðum dæmi. Kona er með 500.000 krónur í mánaðarlaun í 40 ár. Þá greiðir hún 30.000 krónur á mánuði í séreign. Ef ávöxtunin væri engin, yrði upphæðin 14,4 milljónir. Svona lítur dæmið hins vegar út með ávöxtun frá 1% - 8%. 

Stöplarit. 500.000 kr í mánaðarlaun í 40 ár. Hallgrímur Óskarsson. Séreignarsjóðirnir
 Mynd: Kastljós  -  kastljós

Af þessu sést hversu miklu máli langtímameðalávöxtun skiptir og hversu mikilvægt er fyrir hvern og einn að fylgjast með því hvernig gengur hjá þeim sjóði sem greitt er inn í.  Fjallað var um málið í Kastljósi í kvöld og má sjá umfjöllunina í heild í spilaranum hér að ofan.

 

Mynd með færslu
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós