Minnkandi hagvöxtur á næstu tveimur árum

09.08.2017 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Kröftugur hagvöxtur verður hér á landi á þessu ári, eða 5,3 prósent, en hann minnkar á næstu tveimur árum, samkvæmt spá Greiningardeildar Arion banka, sem gefin var út í morgun.

Á næsta ári er spáð 2,7 prósenta hagvexti og að árið 2019 verði hann 2,3 prósent. Einkaneysla verður ein helsta driffjöður hagvaxtarins, studd af litlu atvinnuleysi og kaupmáttaraukningu en einnig hefur útflutningur á þjónustu áhrif.

Samkvæmt spánni, sem gefin var út í morgun, er hagvöxtur til næstu tveggja ára lægri en greiningardeildin hafði áður spáð. Mestu munar um minni vöxt í fjárfestingum í atvinnuvegi en gert var ráð fyrir. Samkvæmt spánni þá hægir á vexti fjárfestinga á næstu tveimur árum. Þá fara áhrif uppbyggingar í stóriðju- og raforkuframleiðslu að fjara út. 

Krónan gæti styrkst lítillega á komandi mánuðum en veikst eftir mitt næsta ár, enda raungengið þá komið í hæstu hæðir og farið að hægja á í hagkerfinu.

Horfur á verðbólgu hafa batnað síðan í mars, samkvæmt spánni, og er reiknað með að áhrif gengis vari lengur og að hraðar hægi á hækkun fasteignaverðs en áður var talið. Greiningardeild Arionbanka spáir því að verðbólga aukist á næsta ári og fari yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans en verði þó innan vikmarka.

Dagný Hulda Erlendsdóttir