Minnihlutahópar sækja um hæli

16.01.2017 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flestir hælisleitendur frá Albaníu og Makedóníu tilheyra minnihlutahópum sem eiga erfitt með að fá vinnu og framfleyta sér í heimalöndunum, samkvæmt greiningu Evrópsku stuðningsskrifstofunnar í hælismálefnum. Íslensk stjórnvöld reyna að fækka tilhæfulausum hælisumsóknum með því að flýta meðferð þeirra.

 

1132 sóttu um hæli á Íslandi á síðasta ári. Það er 220 prósenta fjölgun frá árinu 2015. Langflestir umsækjendur koma frá Makedóníu og Albaníu, en þeir fá ekki hæli hér á landi þar sem löndin teljast örugg ríki.

Utanríkisráðuneytið hefur á undanförnum mánuðum skoðað leiðir til að draga úr tilhæfulausum umsóknum um vernd. Ráðuneytið hefur meðal annars stuðst við greiningu Evrópsku stuðningsskrifstofunnar í hælismálefnum um flóttamannastrauminn frá Balkanríkjunum í öðrum Evrópuríkjum. 

Þar kemur meðal annars fram að flestir hælisleitendur frá Albaníu og Makedóníu tilheyra minnihlutahópum sem eiga erfitt uppdráttar í heimalandinu, hafa takmarkað aðgengi að atvinnu og heilbrigðis- og félagsþjónustu, og búa því við fátækt. Sumir Albanir segjast flýja blóðhefnd, og margir vonast eftir betri menntun.

Fólkið fer gjarnan með ólöglegum hætti inn á Schengen-svæðið í gegnum Ungverjaland, en margir hælisleitendanna hér hafa komið með flugi frá Búdapest. Í skýrslunni kemur fram að þeir þættir sem helst laði hælisleitendur frá Balkanríkjunum að öðrum löndum sé langur málsmeðferðartími hælisumsókna, bætur og hlunnindi meðan á biðinni stendur, ef hópar samlanda þeirra séu fyrir í landinu, og líkur á því að fá vinnu með löglegum eða ólögmætum hætti. 

Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að skjót málsmeðferð virðist skila mestum árangri, og því hafi íslensk stjórnvöld sett mestan þunga í vinnu við að hraða afgreiðslu mála án þess að draga úr gæðum og réttaröryggi. Til dæmis fá þær umsóknir forgang þar sem umsækjendur eru taldir annað hvort mjög líklegir, eða mjög ólíklegir til að fá hæli. Ný bráðabirgðaákvæði í lögum um útlendinga hafa í för með sér að hægt er að vísa hælisleitendum frá Íslandi um leið og Útlendingastofnun hefur tekið ákvörðun í málinu og synjað umsókn, og þarf því ekki að bíða þess að kærunefnd útlendingamála hafi tekið málið til meðferðar.