Minnast Chuck Berrys

Erlent
 · 
Tónlist
Mynd með færslu
Chuck Berry á tónleikum í Santíagó í Chile. Myndin var tekin fyrir þremur árum.  Mynd: EPA  -  EFE

Minnast Chuck Berrys

Erlent
 · 
Tónlist
Mynd með færslu
19.03.2017 - 22:44.Ásgeir Tómasson
Bandaríska rokk-frumkvöðulsins Chucks Berrys, sem lést í gær níræður að aldri, hefur verið minnst í fjömiðlum og á samfélagsmiðlum um allan heim í dag. Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fór fögrum orðum um rokkarann.

Hann lét ekki þar við sitja heldur sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði meðal annars að Chuck Berry hefði breytt Bandaríkjunum og sögu dægurtónlistar með tónsmíðum sínum.

Listamaðurinn og lögin hans hefðu verið óaðskiljanleg, frumleg og amerísk út í gegn. Með tónlist sinni hefði Chuck Berry fengið fætur til að hreyfast og geðið að kætast. Chuck Berry kom fram á tónleikum daginn sem Bill Clinton tók við forsetaembætti árið 1993 og aftur fjórum árum síðar þegar hann sór embættiseið öðru sinni. Síðasta árið sem Clinton gegndi forsetaembættinu heiðraði hann Chuck Berry fyrir framlag hans til tónlistarinnar. 

Annar fyrrverandi forseti, Barack Obama, minntist Chuck Berry einnig. Hann sagði hann hafa oltið yfir alla sem á undan komu - og haft áhrif á alla sem á eftir honum komu. Hans verði saknað.

Bítillinn Ringo Starr minntist Chuck Berry með hans eigin orðum. John Lennon heitinn, samherji Ringos í Bítlunum, hafði það eitt sinn á orði að ef rokk og ról þyrfti að fá annað nafn, gæti það allt eins orðið Chuck Berry.
 

Rolling Stones minntust Chuck Berry á Facebook. Þeir sögðu hann frumkvöðul og haft mikil áhrif á tónlist Rolling Stones. Hann hafi ekki einungis verið frábær gítarleikari, söngvari og skemmtikraftur heldur snilldar lagahöfundur. Lög hans muni lifa að eilífu.

Tengdar fréttir

Norður Ameríka

Rokkgoðsögnin Chuck Berry látin