Milo Yiannopoulos í mál við fyrrum útgefanda

10.07.2017 - 17:19
epa05990295 Milo Yiannopoulos (C) arrives to speak at a protest  against The City University of New York (CUNY) decision to allow Linda Sarsour, a liberal, Palestinian-American political activist, to speak at this year?s commencement in New York, New York
Milo Yiannopoulos að mótmóla því að palestínska aktívistianum Lindu Sarsour hafi verið boðið að tala við brautskráningu stúdenta í The City University of New York.  Mynd: EPA
Hinn alræmdi fyrirlesari og pistlahöfundur Milo Yiannopoulos hefur kært fyrrum útgefanda sinn, Simon & Schuster, fyrir að hætta við að gefa út sjálfsævisögu hans fyrr á árinu.

Það er Guardian sem greinir frá því en Yiannopoulos krefst tíu milljóna dollara, rúmlega miljarðs króna, af útgefandanum. Hætt var við útgáfu bókarinnar Dangerous í febrúar eftir að myndandsupptaka kom fram þar sem Yiannopoulos virtist afsaka kynferðissambönd milli fullorðinna og unglinga allt niður í 13 ára gamalla. Yiannopoulos tók síðar orð sín til baka sagði þau hafa verið leið til að takast á við það að hafa verið misnotaður í æsku.

Myndbandið þar sem Milo ræðir kynferðissambönd milli fullorðinna og unglinga.

Yiannopoulos endaði á því að gefa sjálfur út ævisögu sína sem kom út 4. júlí og hefur selst í meira en 100.000 eintökum að sögn talsmanna Yiannopoulos. Þrátt fyrir það væri það samningsbrot af hálfu Simon & Schuster að hætta við útgáfuna og hefði líklega selt mun fleiri eintök með markaðslegan styrk Simon & Shuster á bak við sig. „Þeir munu þurfa að borga fyrir að þagga niður í íhalds- og frjálshyggjumönnum,“ sagði Yiannopoulos við Publishers Weekly en hann tilkynnti kæruna og efndi til mótmæla fyrir utan höfuðstöðvar útgefandans þar sem um 150 áhangendur hans komu saman.

Milo Yiannopoulos er pistlahöfundur á íhaldssömu fréttaveitunni Breitbart og hefur verið tengdur við hina svokölluðu alt-right hreyfingu, sem samanstendur af mjög íhaldssömum hægrimönnum sem hafa andúð á gyðingum, samkynhneigðum og transfólki, auk þess að berjast gegn femínistum og Black Lifes Matters hreyfingunum sem þeir telja ógn við tjáningarfrelsið. Lögmenn Simon & Shuster segja engan lagalegan grundvöll fyrir kröfu Yiannopoulos og tilgangur kærunnar sé einungis að þyrla upp moldviðri í fjölmiðlum til að vekja athygli á bókinni Dangerous

Mynd með færslu
Davíð Roach Gunnarsson
vefritstjórn