Milljónir greiddu atkvæði í Venesúela

17.07.2017 - 08:47
epa06090893 Venezuelan cast their vote during a poll called 'popular consultation' at Colon Square in  in Caracas, Venezuela on 16 July 2017. Venezuelans are able to vote organised by the opposition to express their support or rejection to the
 Mynd: EPA  -  EFE
Um 7,2 milljónir manna greiddu í óformlegri þjóðaratkvæðagreiðslu sem stjórnarandstæðingar í Venesúela efndu til í gær. Nicolas Maduro, forseti Venesúela, segir atkvæðagreiðsluna marklausa.

Atkvæðagreiðslan beindist gegn áformum áformum stjórnvalda um breytingar á stjórnarskrá landsins, en 30. þessa mánaðar á að kjósa nýtt stjórnlagaþing sem hefur heimild til að gera breytingar stjórnarskrá og ríkisstofnunum. Gagnrýnendur segja að með kjöri hins nýja þings kunni að verða lagður grunnur að einræði í Venesúela.

Háskóli í Venesúela, sem hafði umsjón með framkvæmd hinna óformlegu kosninga í gær, greindi frá því í morgun að um 6,5 milljónir landsmanna hefðu greitt atkvæði á kjörstöðum í landinu, en nærri 700.000 erlendis.

Þetta eru heldur færri en greiddu stjórnarandstöðunni atkvæði í þingkosningunum í Venesúela fyrir tveimur árum, en þá fékk hún 7,7 milljónir atkvæða. Á kjörskrá eru nærri 20 milljónir.

Atkvæðagreiðslan virðist að mestu hafa gengið vel, en kona var skotin til bana þar sem hún stóð í biðröð við kjörstað í höfuðborginni Caracas, þegar menn á vélhjólum óku hjá og skutu á kjósendur. Nokkrir særðust í árásinni. 

Maduro forseti segir atkvæðagreiðsluna enga þýðingu hafa, kjör nýs stjórnlagaþings sé hins vegar eina leiðin til að binda enda á pólitíska og efnahagslega kreppu í landinu.