Miklir eldar geisa á Grænlandi

09.08.2017 - 11:39
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af Twitter
Eldar geisa nú á meira en tólf hundruð hektara svæði á Vestur-Grænlandi. Á gervihnattamyndum sjást miklar eldtungur en talið er að þetta séu sinueldar. Svæðið er um hundrað kílómetra norður af Sisimiut, sem er næststærsti bær Grænlands.

Það hefur verið óvenju hlýtt og þurrt á Grænlandi síðustu vikur. Ekki er vitað hvernig eldurinn kviknaði en talið er að það hafi verið um helgina. Sjaldan eða aldrei hefur álíka bál logað á Grænlandi. Stef Lhermitte, prófessor við Delft-háskóla í Hollandi, segir að ekki sé vitað af sinueldum á borð við þennan á þessari öld, frá því vísindamenn fóru að fylgjast reglulega með landinu á gervihnattamyndum. 

Langstærsti hluti Grænlands er þakinn jöklum og því sjaldgæft að þar kvikni sinueldar en það gerist þó nokkrum sinnum á ári að jafnaði. Árið í ár sker sig þó úr því að það hefur verið helmingi meira um elda en metárið 2015, samkvæmt mælingum Lhermittes en rætt er við hann á vef breska blaðsins Independent.  

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV