Miklar tafir í tvær vikur

11.09.2017 - 15:16
Mynd með færslu
Þrengt verður að umferð um Kringlumýrarbraut 12. til 26. september.  Mynd: RÚV
Miklar tafir verða á umferð um Kringlumýrarbraut í Reykjavík næstu tvær vikurnar. Einnig er útlit fyrir tafir í nágrenni hennar. Ástæðan er framkvæmdir við kaldavatnslögn á vegum Veitna, rétt sunnan við Miklubraut. Undirbúningur hefst í kvöld þegar þrengt verður að umferð um Kringlumýrarbraut. Þegar háannatími hefst í fyrramálið komast vegfarendur því aðeins um fáeinar þeirra akreina sem alla jafna eru opnar. Opið verður fyrir umferð í báðar áttir en á færri akreinum.

Með framkvæmdunum á að auka rekstraröryggi vatnsveitunnar og koma til móts við aukna þörf fyrir kalt vatn í vesturhluta Reykjavíkur. Þörf sem er til komin vegna þéttingar byggðar. Verulega þarf að þrengja að umferð meðan á þeim framkvæmdum stendur. 

Þessu til viðbótar verður syðri akbraut Miklubrautar, lokuð fyrir umferð í austur, milli Snorrabrautar og Lönguhlíðar, frá klukkan níu á miðvikudag og fram eftir degi.

Velji annan ferðatíma eða ferðaleið

Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hvetur fólk til að fylgjast vel með upplýsingum um framkvæmdirnar og taka mið af þeim. Meðal annars með því að velja annan ferðatíma en háannatíma ef hægt er.

„Það væri ágætt að huga að því að velja aðrar leiðir en nákvæmlega þessa, bæði á morgnana og síðdegis þegar reikna má með miklu álagi,“ segir Ómar Smári. „Ef það tekst ekki þá er ekkert um annað að ræða en sýna þolinmæði og langlundargeð á staðnum.“

Ómar Smári segir að búast megi við talsverðum töfum í upphafi framkvæmda. Þó megi gera ráð fyrir að það dragi úr þeim þegar fólk venjist stöðunni og taki mið af henni.

„Við komum til með að gefa þessu gaum og grípum inn í ef ástæða þykir til,“ segir Ómar Smári. Það getur þó reynst erfitt. Vegna ljósastýringar gætu tilraunir til að leysa úr teppu á einum stað leitt til tafa á öðrum gatnamótum í nágrenninu.

Mynd með færslu
 Mynd: Benedikt Guðnason  -  Radio.is
Framkvæmdirnar á Kringlumýrarbraut geta líka haft áhrif á umferð um Miklubraut.

Átti að gerast í sumar

Framkvæmdatíminn þykir óhentugur. Stutt er síðan haustumferðin náði hámarki og ekki hefur dregið úr henni eins og gerist þegar líður á september og fram í október.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Veitum, segir að framkvæmdin hafi verið á dagskrá í sumar. „Það voru ýmis atriði sem töfðu hana. Það voru tafir vegna leyfisveitinga. Við fengum ekki efni afhent frá birgjanum okkar í Frakklandi. Svo skullu á sumarleyfi og fleira slíkt. Það voru ýmsar ástæður fyrir að henni seinkaði.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV