Miklar skemmdir á Kóralrifinu mikla

10.04.2017 - 09:13
Skemmdir á kóröllum vegna bleikingar, á Kóralrifinu mikla, stærsta kóralrifi heims.
Skemmdir á kóröllum vegna bleikingar, á Kóralrifinu mikla, stærsta kóralrifi heims.  Mynd: EPA  -  ARC CENTRE CORAL REEF STUDIES
Tveir þriðju hlutar Kóralrifsins mikla (Great Barrier Reef), stærsta kóralrifs heims, eru illa farnir vegna bleikingar, sem rakin er til mikillar hlýnunar sjávar. Þetta sýnir ný rannsókn vísindamanna við ACR - rannsóknarmiðstöð um kóralrif.

Vísindamenn ACR segja að kóralar hafi orðið fyrir bleikingu á um 1.500 kílómetra löngu svæði. Mestar eru skemmdirnar um miðbik kóralrifsins. Þessar skemmdir koma í kjölfar mikilla skemmda sem urðu á rifinu í fyrra. Þær voru mestar á nyrðri kafla rifsins. Breska ríkisútvarpið hefur eftir sérfræðingum að vegna þess hve skammt er á milli þessara áfalla, verði enn erfiðara en ella fyrir skemmda kórala að jafna sig. Syðsti hluti Kóralrifsins mikla er enn tiltölulega óskemmdur.

Kóralrifið er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Það er sá staður á skránni þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki er mestur. 1.500 tegundir fiska, 4.000 tegundir skeldýra, 240 fuglategundir og 400 tegundir kórala eiga heimkynni á Kóralrifinu mikla. Þá lifa þar sækýr og sæskjaldbökur – tegundir sem eru í útrýmingarhættu. Kóralrifið er um 2.000 kílómetra langt og um 348.000 ferkílómetrar að flatarmáli – meira en þrefalt stærra en Ísland, sem er um 103.000 ferkílómetrar.

Auðugt lífríki þrífst á kóralrifjum.
Auðugt lífríki þrífst á kóralrifjum.  Mynd: EPA  -  AAP/JAMES COOK UNIVERSITY
Auðugt lífríki þrífst á kóralrifjum.
 Mynd: EÐPA  -  AAP/JAMES COOK UNIVERSITY

Á Vísindavefnum segir að bleiking kórala orsakist af streituástandi, til dæmis af völdum hitastigsbreytinga. Hún leiði til þess að „sambýli (e. symbiotic) kórals og ljóstillífandi þörunga (Zooxanthellae), sem sjá honum fyrir orku til vaxtar og viðheldur lit hans, rofnar. Þegar þetta samband rofnar og kóralarnir deyja hefur það gríðarmikil áhrif á aðrar lífverur því kóralrifin eru búsvæði og uppeldisstöðvar fjölda tegunda.“

Kóralrif geta jafnað sig eftir bleikingu. Það getur þó tekið fleiri áratugi. Sé streituástandið og bleikingin viðvarandi, er hætt við að kóralrifið deyji.

Terry Hughes, prófessor í við James Cook háskóla í Ástralíu, segir í viðtali við BBC að stjórnvöld um allan heim verði að bregðast við loftslagsbreytingum til að koma í veg fyrir frekari bleikingu kórala. Því fyrr sem gripið verði til aðgerða vegna gróðurhúsalofttegunda, og jarðefnaeldsneyti skipt út fyrir endurnýjanlega orkugjafa, því betra. Á Twitter-síðu sinni segist hann hafa sýnt nemendum sínum niðurstöður könnunar á bleikingu á Kóralrifinu mikla. Þau hafi öll verið miður sín.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV